(Morgunblaðið, 27. maí, 2003)
ÓRAUNHÆFT er að nýta garðúðun til að vinna bug á sitkalúsarfaraldri, sem geisað hefur í borginni í vetur. Þetta kemur fram í minnisblaði deildarstjóra Garðyrkjudeildar Reykjavíkur til borgarstjóra. Deildin mun bregðast við faraldrinum með því að úða einstaka minni lundi og tré en reyna að standa faraldurinn af sér að öðru leyti.

Í minnisblaðinu kemur fram að sitkalúsafaraldur hafi geisað í borginni í vetur og beri trjágróður þess víða merki. Lúsin leggist á flestar grenitegundir en þar sem sitkagreni hafi ekki aðlagast lúsinni eins og aðrar tegundir, fari það sérstaklega illa.

Kemur fram að lúsinni fer að fjölga í trjám á haustin þar sem hún þrífst illa á trjám í vexti og talsvert frost þarf til að hún láti undan. Þar sem síðastliðinn vetur hafi verið mildur hafi lúsin ekki einungis verið á ferli fyrri hluta hans heldur haldið áfram að vinna skaða. Þegar trjágróður taki að vaxa á ný fari að draga úr áhrifum lúsarinnar en hætt sé við að hún gjósi upp að nýju í haust.

"Áhrif lúsarinnar eru sláandi, ekki síst núna áður en annar gróður fer að laufgast." Þetta svíður allt ræktunarfólk." segir í minnisblaðinu. "Reynsla af fyrri faröldrum sýnir þó að sjaldgæft er að tré drepist en þau geta verið nokkur ár að ná sér. Það er því ekki ástæða til að örvænta."

Kemur fram að hægt sé að úða við lúsinni en hins vegar sé óraunhæft að úða heilu svæðin í borginni. Líta verði á faraldurinn sem óveður sem gangi yfir.

Viðbrögð Garðyrkjudeildar verði að stærstum hluta að bíða óveðrið af sér og úða á einstaka minni lundi og tré, aðallega í skrúðgörðum. Þá verði þau tré, sem lúsin hefur leikið verst, fjarlægð í næstu grisjunum.