Úr Fannardal í Norðfirði. Ljósmynd: Smári Geirsson/svn.is
Úr Fannardal í Norðfirði. Ljósmynd: Smári Geirsson/svn.is

Síldarvinnslan hyggst rækta skóg til kolefnisbindingar  á jörðinni Fannardal í Norðfirði. Verkefnið verður unnið í samstarfi við Skógræktina og verður hæft til skráningar í Loftslagsskrá Íslands. Þar með stefnir fyrirtækið á ábyrga kolefnisjöfnun á móti losun frá rekstri sínum.

Frá þessu segir í frétt á vef Síldarvinnslunnar. Fyrirtækið hefur fest kaup á jörðinni Fannardal í Norðfirði og er áformað að nýta hana til skógræktarinnar. Með þeirri skógrækt hefur fyrirtækið bindingu kolefnis á móti þeirri kolefnislosun sem það veldur með starfsemi sinni. Landið sem nýtt verður til skógræktar er 300-400 hektarar.

Stefnt er að því að hin fyrirhugaða skógrækt í landi Fannardals verði framkvæmd í samvinnu við Skógræktina sem sjá mun um áætlanagerð vegna verkefnisins. Það á að fullnægja öllum kröfum Loftslagsráðs um vottun og á ræktunin að verða hæf til skráningar í Loftslagsskrá Íslands.

Svo að bindingar- eða kolefnisjöfnunarverkefni geti talist ábyrg er nauðsynlegt að viðkomandi geti sýnt fram á að hafa unnið að því að draga úr losun sinni og hyggist vinna að því áfram. Síldarvinnslan hefur markvisst unnið að verkefnum á sviði umhverfismála á undanförnum árum. Rafvæðing fiskimjölsverksmiðja hefur verið á dagskrá og einnig hafa verið keypt ný og sparneytin skip þannig að olíunotkun fyrirtækisins hefur minnkað mikið. Nýjasta verkefnið er öflugur landtengingarbúnaður við fiskiðjuverið í Neskaupstað sem gerir mögulegt að skipin noti einungis raforku þegar landað er. Sams konar búnaði er nú verið að koma upp við fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað. Nú bætist síðan við hin fyrirhugaða skógrækt í Fannardal.

Í frétt Síldarvinnslunnar kemur fram að þar séu miklar vonir bundnar við skógræktarverkefnið. Auk þess að skógurinn gegni hlutverki á sviði kolefnisbindingar verði mögulegt að gera Fannardal að eftirsóknarverðu útivistarsvæði sem allir geti notið. Nú verði ráðist í að skipuleggja landið og ákveða hvenær skógræktarverkefnið hefst. Hægt verður að fylgjast með framgangi verkefnisins á komandi mánuðum á vef Síldarvinnslunnar.

Texti: Pétur Halldórsson