Nú er lokið sjöunda og síðasta grunnnámskeiðinu í röð þeirra námskeiða sem haldin eru fyrir þá skóla sem taka þátt í skólaþróunarverkefninu LESIÐ Í SKÓGINN ? með skólum. Það var Flúðaskóli sem rak endapunktinn og sóttu flestir starfsmenn skólans námskeiðið. Þeir komust í kynni við skóginn og unnu með ferskan við í skapandi viðfangsefnum með hníf og exi. Einnig var farin skógarferð þar sem umhirða skógarins, skógarvistfræðin og aðstaða til útináms var til umfjöllunar og hvernig best væri staðið að vinnu með nemendum í grenndarskóginum.

Vesturbæjarskóli, einn ?skógarskólanna?, eignaðist á dögunum sinn grenndarskóg þegar gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu, í vesturbæ Reykjavíkur, var formlega skilgreindur sem skógur. Forstöðumaður Kirkjugarða Reykjavíkur og skólastjóri Vesturbæjarskóla undirrituðu samkomulag, að viðstöddum nemendum skólans, um að kirkjugarðurinn yrði grenndarskógur Vesturbæjarskóla. Það þýðir að hann verður nýttur til að kenna nemendum um íslenska skóga og efla vitund þeirra um skógarvistfræði og skógarnyt.

Framundan eru undirskriftir samstarfssamninga við Andakílsskóla og Kleppjárnsreykjaskóla um grenndarskóga. Að því loknu eiga þrír skólar í skólaþróunarverkefninu eftir að eignast grenndarskóg, Laugarnesskóli, Varmalandsskóli og Flúðaskóli, en þess er vænst að því ljúki fyrir áramót.