#Vesturameríkuskógar

Út eru komin á Youtube-rás Skógræktarinnar sextán myndbönd úr ferð skógræktarfólks af Austurlandi sem farin var til vesturstrandar Norður-Ameríku haustið 2013. Þar voru meðal annars skoðuð hæstu, mestu og elstu tré í heiminum, farið á slóðir stafafuru, sitkagrenis og fleiri merkra trjátegunda. Myndefnið tók Hlynur Gauti Sigurðsson en Kolbrún Guðmundsdóttir sá um samsetningu ásamt Hlyni.

Ferðina skipulagði Sherry Curl skógfræðingur og eru myndböndin öll helguð minningu hennar. Ferðafélagarnir voru hópur skógræktarfólks af Austurlandi ásamt mökum. Farið var m.a. í Kalamalka-rannsóknarstöðina í Veronon sem er miðstöð trjákynbóta og erfðarannsókna fyrir innlandssvæði Bresku-Kólumbíu. Einnig var farið í Banff-þjóðgarðinn í Klettafjöllum Alberta-fylkis í Kanada og Yosemite-þjóðgarðinn í Sierra Nevada fjöllum í Kaliforníu.

Annars má segja að í ferðinni hafi verið heimsóttar margar af merkustu trjátegundum Norður-Ameríku svo sem risalífviður (Thuja plicata), heimsins elstu tré sem eru af langlífu tegundinni af broddfuru (Pinus longaeva) í Hvítufjöllum norðan Dauðdals í Kaliforníu. Að sjálfsögðu eru líka skoðaðar stærstu lífverur heims, risafururnar í vesturhlíðum Snjófjalla (Sierra Nevada) í Kaliforníu, Sequoiadendron giganticum. Þar á meðal er Héraðsmaður hershöfðingi (General Shermann), stærsta risafura og þar með alstærsta lífvera í heimi, yfir 100 metra hátt og um 1.400 rúmmetrar að viðarmagni.

Ekki verða öll myndböndin talin upp hér en nefna má myndbönd um gulfuru, strandrauðvið, sitkagreni, strandfuru, degliregnskóga og fleira. Að neðan er listi yfir öll myndböndin. Um textagerð sá Þröstur Eysteinsson og hann er líka þulur í myndböndunum. Kvikland framleiðir þau.

 

Texti: Pétur Halldórsson