Tæp sextíu prósent hafa áhuga á að stunda meiri skógrækt í framtíðinni

Um 39% sauðfjárbænda segjast hafa stund­að skógrækt í einhverri mynd samkvæmt könnun sem Landssamtök sauðfjárbænda hafa gert meðal félags­manna sinna. Flestir vilja þessir bændur auka skógrækt sína og helmingur þeirra sem ekki hafa ræktað skóg hingað til segist hafa áhuga á því að hefja skógrækt.

Sagt er frá niðurstöðum könnunarinnar á blaðsíðu 2 í Bændablaðinu sem kom út í dag. Þar kemur fram að nærri 90% sauðfjárbænda stundi uppgræðslu og alls hafi verið grætt upp eða bjargað landi á um 35 þúsund hekturum með verkefninu Bændur græða landið, sem er samvinnuverkefni Landgræðslunnar og bænda.


Landssamtökin vildu kanna hug bænda í tengslum við framtíðarstefnu samtakanna til 2027 þar sem m.a. er stefnt að því að greinin verði vottuð sjálfbær. Liður í því er tíu ára samvinnuverkefni með Land­græðslunni og atvinnuvegaráðuneytinu um kortlagningu gróðurauðlindarinnar. Upp­lýsingarnar sem aflast verða m.a. nýttar vegna endurskoðunar búvörusamninga.

Aðspurð segjast um 39% sauðfjárbænda hafa stundað skógrækt í einhverri mynd, hvort sem er á eigin vegum eða í skipu­lögðum verkefnum. Af þeim segjast þrír fjórðu vilja stunda meiri skógrækt. Rétt rúm sextíu prósent sauðfjárbænda hafa hingað til ekki stundað skógrækt en næstum helmingur þeirra segist hins vegar hafa á því áhuga. Samtals vilja því nær sex af hverjum tíu sauðfjárbændum rækta meiri skóg.

Að því er Bændablaðið segir frá hafa Lands­samtökin á undanförnum misserum lagt drög að ýmsum skógræktarverkefnum. Þórarinn Ingi Pétursson, fyrrverandi formaður samtakanna, hafi til dæmis verið ötull talsmaður þess að ráðist yrði í nýrækt sérstakra beitarskóga. Í umræddri könnun kemur fram að yngri bændur hafi meiri áhuga á bæði uppgræðslu og skógrækt en þeir sem eldri eru.

Nánar má lesa um könnunina í Bændablaðinu 8. júní

Texti: Pétur Halldórsson