Sauðfjárrækt og skógrækt eru búgreinar sem fara mjög vel saman. Skógræktin getur stutt við sauðfjárr…
Sauðfjárrækt og skógrækt eru búgreinar sem fara mjög vel saman. Skógræktin getur stutt við sauðfjárræktina með margvíslegum hætti og stuðlað að sjálfbærni búrekstursins. Myndin er tekin á Jökuldal.

Ráðist verði í kolefnisbindingarátak í samvinnu bænda og stjórnvalda

Sérstakt kolefnisbindingarátak er meðal þeirra tillagna í átta liðum sem fulltrúar aðildarfélaga Landssamtaka sauðfjár­bænda samþykktu á fundi í Bændahöllinni í gær. Bændur vilja binda kolefni með upp­græðslu, skógrækt, endurheimt votlendis og öðrum aðgerðum í samvinnu við stjórn­völd.

Á fundinum var fjallað um aðgerðir vegna vanda sauðfjárræktarinnar. Fyrir fundinum lá að bregðast við tillögum sem  land­bún­að­ar­ráðherra setti fram nýverið og gera ályktun um framhaldið. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fráfarandi land­búnaðar­ráð­herra, kom á fundinn og hélt ræðu þar sem hún fór yfir atburðarás síðustu mánaða og rökstuddi tillögur sínar.

Forysta sauðfjárbænda mat stöðuna sem svo að ráðherra hefði ekki pólitískt bakland til þess að koma málinu áfram og því voru tillögur Þorgerðar Katrínar aldrei teknar til efnislegrar umfjöllunar eða afgreiðslu á fundinum. Þess í stað samþykkti fundurinn tillögur um aðgerðir í átta liðum þar sem fjallað er um greiðslur vegna kjaraskerðingar, að gerð verði úttekt á virðiskeðjunni, ráðist í aðgerðir vegna skuldamála, gerð úttekt á birgðum og mörkuðum, kannaðir möguleikar á aðgerðum til sveiflujöfnunar á markaði, hugað að vöruþróun og vöruframboði og svo að ráðist verði í kolefnisverkefni. Tillaga fundarins um þau efni er á þessa leið:

Kolefnisverkefni

Fundur sauðfjárbænda leggur til að ráðist verði í sérstakt kolefnisbindingarátak í samvinnu sauðfjárbænda og stjórn­valda. Markmiðið er að nýta krafta bænda til að vinna að markmiðum Íslands í loftslagsmálum með samdrætti í losun og aukinni bindingu með uppgræðslu, skógrækt, endurheimt votlendis og öðrum aðgerðum. Fyrir liggur að stjórnvöld þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir verulegar fjárhæðir á komandi árum og þetta verkefni gefur færi á að nýta þá fjármuni hér innanlands. Um endanlega útfærslu verði samið við umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Fjallað er um málið á vef Bændablaðsins í dag:

Texti: Pétur Halldórsson