Lesið í skóginn, ÍTR og Menntavísindasvið Háskóla Íslands vinna nú að samstarfsverkefni með stuðningi frá Rannís.

Verkefnið er tvískipt. Annars vegar er markmiðið að safna saman upplýsingum sem liggja fyrir um þá grenndarskóga í Reykjavík sem nýttir eru í skólastarfi og kanna hvað einkennir þessa skóga. Hins vegar verður gerð tillaga að efni á heimasíðu sem ætlað er að stuðla að sjálfbærri nýtingu skóganna. Þar verður að finna almennar upplýsingar um mismunandi grenndarskóga, leiðbeiningar um nýtingu þeirra og upplýsingar um hvernig umgengni við þá skal háttað. Þetta efni verður síðar hægt að samtvinna verkefnabanka, sem er í vinnslu, þar sem kennarar fá aðgang að hugmyndum um hvernig nýta má grenndarskóga í kennslu á mismunandi námsgreinum. Markmiðið er að til verði heildstæðar og aðgengilegar upplýsingar um grenndarskóga sem ekki eingöngu auka notagildi þeirra heldur leiða einnig til verndunar svæða og tegunda þar sem æskilegt er að dregið verði úr ágangi. Þá mun slíkur upplýsingabanki leiða til þess að hægt sé að efla enn frekar vöxt og viðgang skóganna.

frett_09082011Að verkefninu vinnur Gyða S. Björnsdóttir undir leiðsögn Ólafs Oddssonar, fræðslufulltrúa Skógræktar ríkisins. Gyða S. Björnsdóttir útskrifaðist frá Myndlistar- og handíðaskóla Íslands, skúlptúrdeild. Hún vann lengi sem kynningar- og fræðslufulltrúi SORPU og hefur góða reynslu af kynningar- og auglýsingarmálum. Hún hefur á undanförnum árum starfað sjálfstætt við hönnun á auglýsingum, bæklingum af ýmsum gerðum, skiltagerð, umbrot og hefur gert fræðsluefni um umhverfismál fyrir börn og fullorðna svo dæmi sé tekið. Árið 2010 hóf hún mastersnám í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands.


Texti: Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi SR