Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, Sigrún Magnúsdóttir ráðherra og Árni Bragason landgræðslustjór…
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, Sigrún Magnúsdóttir ráðherra og Árni Bragason landgræðslustjóri takast í hendur að lokinni undirrituninni.

Tryggir framhald verkefnisins næstu fimm árin

Í dag var undirritaður nýr samningur  um Hekluskóga sem tryggir framlög til verk­efnisins næstu fimm árin. Frá því að verk­efnið hófst fyrir áratug hafa verið gróðursettar hartnær þrjár milljónir trjá­plantna, aðallega birki, á a.m.k. 1.500 hekturum lands. Árleg fjárveiting ríkisins til verkefnisins er 27,5 milljónir.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Árni Bragason land­græðslu­stjóri og Þröstur Eysteins­son skógræktarstjóri undirrituðu samninginn í dag í Hörpu þar sem norræna líf­hag­kerfis­ráðstefnan NordBio stendur nú yfir.  ára samning um áframhaldandi endur­heimt Hekluskóga.  Árleg fjárveiting til verkefnisins er 27,5 milljónir.

Meginmarkmið Hekluskóga verður óbreytt, að klæða land á áhrifasvæði Heklu trjágróðri til þess að draga úr áhrifum öskugosa úr eldstöðinni. Trjágróður þolir öskufall mun betur en land sem eingungis er vaxið lággróðri og dregur líka úr foki gosefna. Hugmyndin er sú að gróðursetja og sá birki í svokallaðar eyjar þannig að birkið geti breiðst þaðan út og á endanum orðið ríkjandi á þeim 90 þúsund hekturum sem verkefnið nær yfir. Auk þess að verjast þeirri náttúruvá sem eldgos í Heklu eru eykur skógurinn auðvitað gæði lands, myndar skjól, eflir vistkerfin, bindur kolefni og margt, margt fleira.

Þótt Hekluskógaverkefnið sé samstarfsverkefni Skógræktarinnar og Landgræðslunnar er einkenni þess einn­ig hversu margir aðrir leggja hönd á plóginn, einstaklingar, landeigendur, sjálboðaliðahópar, skógaræktarfélög og fleiri samtök, Landbúnaðarháskóli Íslands og fleiri og fleiri. Verkefnið getur líka af sér ýmiss konar þróunar­verkefni og rannsóknir. Til dæmis hefur byggst upp mikil reynsla við skóggræðslu eyðisanda, notkun kjöt­mjöls til uppgræðslu og þannig mætti áfram telja.

Meðfylgjandi mynd tók Áskell Þórisson hjá Landgræðslunni við undirritun samningsins í dag. Á henni eru frá Vinstri Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Árni Bragason landgræðslustjóri. Að neðan er hlekkur á myndband sem sýnir brot úr ræðu ráðherra við þetta tilefni.

Hluti úr ræðu Sigrúnar Magnúsdóttur

Texti: Pétur Halldórsson
Mynd: Áskell Þórisson