Skógræktarstjóri vonar að sala á kyndistöð Skógarorku á Hallormsstað leiði til þess að eðlilegur markaður myndist fyrir trjákurl á svæðinu en Skógræktin hafi í raun niðurgreitt kurl til stöðvarinnar fyrstu árin.

Frá þessu segir í frétt á vef Ríkisútvarpsins í framhaldi af umfjöllun í sjónvarpsfréttum í gær um kaup Þráins Lárussonar hóteleiganda á kyndistöðinni. Þar segir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri meðal annars að enginn skortur sé á trjám á Héraði en efniviðurinn sé smár og huga þurfi vel að hagkvæmni við nytjar hans.

Í fréttinni segir:

Kyndistöð Skógarorku á Hallormsstað var gangsett fyrir átta árum, þar er viðarkurl brennt og vatn hitað fyrir Hótel Hallormsstað og Hússtjórnarskólann. Stöðin var að mestu í eigu tveggja sveitarfélaga; Fljótdalshéraðs í gegnum Hitaveitu Egilsstaða og Fella- og Fljótsdalshrepps. Sveitarfélögin ráku áður barnaskóla, íþróttahús og sundlaug á staðnum en því var öllu lokað. Rekstur kyndistöðvarinnar var orðinn erfiður því trjákurl fékkst ekki á viðráðanlegu verði og stóð til að loka stöðinni. Úr varð að hótelið, lang stærsti notandinn, keypti kyndistöðina.

Ekki lengur í skjóli Skógræktarinnar

Athygli vekur að erfiðlega gangi að útvega trjákurl á Hallormsstað en þar í kring eru einhverjir mestu nytjaskógar landsins. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri segir að Skógræktin á Hallormsstað hafi átt grisjunarvið sem hafi dugað stöðinni fyrstu árin en verðið sem fékkst fyrir kurlið hafi í raun ekki dugað fyrir kostnaði. Nú þegar skógarbændur þurfa að taka við keflinu þarf um leið að auka hagkvæmni til að bændur fái laun fyrir sína vinnu. „Það er ekki skortur á trjám á Héraði, það er ekki skortur á skógum, þeir eru ungir, efnið er smátt og það þarf að fást við þær áskoranir sem fylgja því að vinna úr slíku efni. Það vantar fleiri smá útkeyrslutæki og það vantar hugsanlega smáar grisjunarvélar til að nýta þennan smáa efnivið úr skógunum,“ segir Þröstur.

Orkukaupandinn í beinu sambandi við skógarbændur

Verðið sem fæst fyrir kurlið skiptir líka máli. Þröstur segir að beint samband hafi vantað milli kaupanda orkunnar úr kurlinu og skógarbænda og vonar að það lagist með nýjum eiganda að kyndistöðinni. „Hingað til hafa opinberir aðilar verið að vasast í þessu og það er von mín að nú séu komnar forsendur til að eðlilegur markaður þróist á Héraði með viðarkurl.“