Hrymtrén sem gróðursett voru í Höfða um aldamótin báru fljótt af rússalerkitrjánum. Nú hafa fyrstu H…
Hrymtrén sem gróðursett voru í Höfða um aldamótin báru fljótt af rússalerkitrjánum. Nú hafa fyrstu Hrymirnir gefið af sér flettingarhæfa boli sem er ekki einungis merkilegt fyrir ungan aldur trjánna heldur einnig vegna þess að timbrið er unnið úr lélegustu trjánum sem fjarlægð voru við grisjun. Ljósmynd: Þór Þorfinnsson

Borð voru flett úr lerki á Hallormsstað. Slíkt telst yfirleitt ekki í frásögur færandi nema að í þetta skipti var umrætt lerki ekki nema 22 ára gamalt frá gróðursetningu. Lerkiblendingurinn 'Hrymur' hefur nú í fyrsta sinn gefið nothæfan smíðavið.

Fyrstu Hrymborðin tilbúin í sögunarmyllu Skógræktarinnar á Hallormsstað. Ljósmynd: Þór ÞorfinnssonBolirnir komu úr grisjun á fyrstu tilraun með afkvæmahópa úr lerkikynbótaverkefni Þrastar Eysteinssonar, nú skógræktarstjóra, sem hófst árið 1992 og nýtti ýmsar aðferðir til að hraða kynbótunum. Nægilegt fræ varð til haustið 1997, sex árum eftir ágræðslu foreldranna, til að hægt væri að efna í að kanna vöxt og gæði afkvæmanna. Fræinu var sáð 1998 og afkvæmatilraunir voru svo gróðursettar árið 1999 á Höfða á Héraði og Mosfelli í Grímsnesi. Meðal afkvæmahópanna voru fimm fjölskyldur af blendingi rússalerkis og evrópulerkis, sem síðan fékk nafnið 'Hrymur'.

Hrymur sýndi mjög fljótlega verulega yfirburði í vaxtarhraða, sérstaklega í Mosfelli þar sem hreina rússalerkið átti bágt. Síðan kom í ljós að yfirburðirnir voru meiri í þvermálsvexti en í hæðarvexti. Til urðu sverir og miklir bolir.

Árið 2021 var ákveðið að grisja afkvæmatilraunina á Höfða, þá 22 ára gamla. Helmingur hvers afkvæmahóps var felldur þannig að betri (hærri, sverari, beinni) trén voru skilin eftir. Lakari tré Hryms voru þó það sver að ákveðið var að taka þau til hliðar og gera tilraunir með flettingu. Aðeins var fellt í tveimur blokkum, eða alls sex tré af hverjum afkvæmahópi. Þar með voru aðeins 30 Hrymir felldir. Ekki voru allir þeir bolir sagtækir en þó nóg í dágóðan stafla af borðum.

Þetta gefur góða vísbendingu um að með réttum aðferðum verði hægt að rækta Hrym þannig að nokkur borðviður fáist við fyrstu grisjun um tvítugt. Með rússalerki fæst enginn borðviður úr snemmgrisjun á þessum aldri og yfirleitt mælt er með því að skilja trén eftir liggjandi í skógarbotninum svo betri tré fái vaxtarrými. Jafnframt gefur þetta til kynna að lotulengd Hryms verði líklega 40-50 ár, eða 10-20 árum skemmri en hjá rússalerki.

Nú er unnið hörðum höndum að því að auka fræframleiðslu blendingsins Hryms í fræhöllinni í Vaglaskógi, sem mun skila sér í hraðvaxta og vel aðlöguðum lerkiskógum framtíðarinnar.

Texti: Þröstur Eysteinsson
Ljósmyndir: Þór Þorfinnsson
Unnið fyrir vef: Pétur Halldórsson