Rannsóknasvæðið, (A) á Evrópukorti afmarkað með svartri línu. Á korti af Rúmeníu (B) sést hvar í lan…
Rannsóknasvæðið, (A) á Evrópukorti afmarkað með svartri línu. Á korti af Rúmeníu (B) sést hvar í landinu sýni voru tekin. Á Walter-Lieth loftslagslínuriti (C) er sýnd meðaltalsúrkoma í hverjum mánuði (blátt, mm), meðalhiti mánaða (rautt, °C), mánuðir með líkum á frosti (ljósblá og blá hólf) byggt á hnituðum gögnum. Ljósmyndin (D) sýnir ásýnd sýnatökusvæðisins.

Niðurstöður rannsóknar sem kynnt er í grein í vísindaritinu Frontiers in Plant Science gætu nýst til að spá fyrir um áhrif loftslagsbreytinga á þróun og framtíð plöntutegunda sem einangrast hafa á jaðarsvæðum, til dæmis hátt til fjalla.

Greinin kallast á ensku Contrasting Climate Sensitivity of Pinus cembra Tree-Ring Traits in the Carpathians. Aðalhöfundur hennar er Marian Ionut Stirbu, meistaranemi við Stefan cel Mare háskólann í Suceava Rúmeníu. Ásamt þeim eru tveir aðrir höfundar frá sama háskóla í Rúmeníu, einn frá Padúu á Ítalíu, einn frá Dresden í Þýskalandi og einn frá Árósum í Danmörku.

Vistkerfi til fjalla eru meðal þeirra sem viðkvæmust eru fyrir röskun loftslagsins á jörðinni. Með greiningu á vexti og viðarvef trjáa af einangruðum eða jaðarsettum stofnum, sérstaklega þeim sem vaxa við efri skógarmörk, er talið að skilgreina megi snemmbúin viðvörunarmerki sem veita okkur betri skilning á viðbrögðum einstakra tegunda við breyttum loftslagsskilyrðum í framtíðinni.

Í rannsókninni sem fjallað er um í greininni var blandað saman aðferðum hefðbundinna tímatalsrannsókna á trjám eða árhringjafræði og mælingum á þéttleika viðar og formbyggingu trjáa. Markmiðið var að kanna hversu viðkvæm sembrafura (Pinus cembra L) væri fyrir breyttu loftslagi. Þessi tegund er dæmigerð jaðartegund hátt til fjalla á meginlandi Evrópu og hefur einangrast á aðskildum svæðum í Karpatafjöllum.

Sembrafura í lágvaxnari fjallafuru hátt í Karpatafjöllum Rúmeníu. Lægra í landinu eru rauðgreniskógar ríkjandi ásamt fleiri tegundum. Ljósmynd: Pétur HalldórssonSýni voru tekin í Retezat-fjöllum í suðvestanverðri Rúmeníu. Skráð var breidd árhringja, hámarksþéttleiki viðarins og líffærafræðileg uppbygging, það er að segja frumufjöldi í árhring, þéttleiki frumna, hlutfall viðaræða og þykkt frumuveggja. Gögn voru sett upp í tímaröð og árhringjum raðað í flokka til að bera mætti þau saman við mánaðarleg og dagleg veðurfarsgögn frá síðustu öld (1901-2015).

Greiningin leiddi í ljós að árhringjabreidd fór mjög eftir frumufjölda í viðkomandi árhring og hámarksþéttleiki viðar var mjög háður þykkt frumuveggjar. Sumarhiti hafði jákvæða fylgni við hámarksþéttleika viðar og þykkt frumuveggja frá snemmvexti viðar til síðvaxtar en ekki við breidd árhringja. Hlutfall viðaræða hafði jákvæða fylgni við vatnsframboð og neikvæða fylgni við hita.

Rannsóknin bætir mjög skilning vísindamanna á samhengi loftslags og vaxtar hjá þessari umræddu evrópsku háfjallatrjátegund og mögulega verður hægt að nota niðurstöðurnar til að spá fyrir um þróun slíkra tegunda í samhengi við spár um breytingar á loftslagi og veðurfari í framtíðinni.

Texti: Pétur Halldórsson