Reyniviður fannst á nýjum stað í Þórsmörk á dögunum. Er hann um 3 m hár með nokkrum stofnum og sprettur hann út úr kletti í Skáldagili í Valahnúki og er afar ólíklegt að hann hafi komið þangað af mannavöldum. Fyrir tveimur árum síðan fannst reyniviður í Langadal í háum og þéttum gulvíðibreiðum. Var sett fram sú tilgáta að hann væri sprottinn upp af fræi sem borist hefði með fugli, líklega skógarþresti. Það var þó erfitt að útiloka að sá reyniviður hefði verið gróðursettur þar. Hins vegar þykir afar ólíklegt að reyniviðurinn sem nú fannst í Skáldagili hafi verið gróðursettur þar í klettinn, og því líklega um náttúrulega útbreiðslu að ræða.

Er það fagnaðarefni að reyniviður skuli aftur finnast í Þórsmörk eftir nokkurra alda útlegð. Sá reyniviður sem næst er Þórsmörk og hefur lifað af náttúruöflin, skógarhögg manna og beit húsdýra er í Nauthúsagili rétt norðan Stóru Merkur. Nauthúsagilsreyniviðurinn er forfaðir stórs hluta þeirra reyniviða sem prýða eldri garða á Suðurlandi og í Reykjavík, enda var berjum af honum safnað og sáð í gróðrastöðinni í Múlakoti og síðar á Tumastöðum.