Á símennunardögum Menntasviðs Reykjavíkur var boðið upp á námskeið Lesið í skóginn fyrir starfandi kennara. Á námskeiðinu var verkefnið kynnt, hverjir standa að því og helstu áherslur í starfi verkefnisins sl. 10 ár. Nytjaáætlanir fyrir grenndarskóganna voru kynntar sérstaklega og þeir möguleikar sem felast í þeim upplýsingum fyrir skógartengt útinám.

Rannveig skólastjóri Ártúnsskóla og Anna Sólveig verknefisstjóri útinámsins þar, sögðu frá því hvernig skólinn hefur nýtt kortagrunninn og nytjaáætlunina í skólastarfi. Fram kom hjá þeim að útinámið og skipulag þess verður miklu markvissara og léttar með tilkomu þessara upplýsinga. Eftir námskeiðið sem haldið var fyrir starfsfólk skólans í vor um notkun á kortagrunninum áttu einstakir kennarar auðveldara með að framkvæma kennsluna í grenndarskóginum.

Brynjar Ólafsson hjá Háskóla Íslands kynnti helstu niðurstöður grenndarskógarkönnunuarinnar sem framkvæmd var meðal Lesið í skóginn skólanna sl. vetur. Hann dró fram í lokin þá þætti sem virðast brenna helst á kennurum varðandi notkun á grenndarskóginum og kynnti hugmyndir að nýjum leiðum og áherslum varðandi símenntun og stuðning við einstaka skóla og kennarahópa. Hann kynnti einnig LÍS- námskeiðin sem haldin eru á Menntavísindasvið HÍ og fagnaði því sérstaklega hversu vel þau hafa verið sótt sl. 5 ár, og eru nú einnig boðin í masterstnámi á kennarabraut skólans. Hann benti hins vegar á að námskeið fyrir starfandi kennara væri ekki í boði og það væri mjög miður, en nauðsyn þess væri oft rædd.

Gyða S Björnsdóttir mastersnemi í umhverfis- og auðlindafræðum kynnti vinnu sína við að taka saman upplýsingar úr kortgrunnum grenndarskógana, flokka þær og gera aðgengilega fyrir heimsíðu verkefnisins og sem leiðbeiningar fyrir notkun á grenndarskógunum í sjálfbæru skólastarfi.

Margrét og Ása sögðu frá vinnu sinni við uppsetningu á verkefnabanka Lesið í skóginn og kynntu hugmyndir að fyrirkomulagi veftrésins og hvernig verkefnin verða skilgreind og flokkuð eftir fagi, aldursstigum og vegna samþættra verkefna í skógartengdu útinámi.

Að lokum var rætt um fyrirkomula símenntunar fyrir kennara sem sinna skógartengdu útinámi og hvernig hægt er að styðja við þá og þeir við hvern annan. Verkefnisstjórn Lesið í skóginn mun taka málið í sínar hendur og finna leið til að sinna þessu brýna verkefni.

Alls tóku 28 kennarar þátt í námskeiðinu og voru margir þeirra frá skólum sem ekki eru í formlegu samstarfi við Lesið í skóginn. Ólafur Oddsson, verkefnisstjóri Lesið í skóginn, stjórnaði námskeiðinu.


Mynd og texti: Ólafur Oddsson