Skógarkolefnisreiknir hefur verið opnaður á vef Skógræktarinnar á slóðinni reiknivel.skogur.is. Þar er hægt að reikna út fyrir fram hversu mikið kolefni er líklegt að ræktaður skógur muni binda næstu hálfa öldina eftir því hvar er borið niður á landinu. 

Þetta nýja og gagnlega tæki er byggt á viðamiklum gagnagrunni um skógræktarskilyrði í öllum lands­hlutum. Ótal breytur eru þar með sem snerta landgerð, hæð yfir sjó, veðurfar og þar fram eftir götunum. Hægt er að spá fyrir um vöxt og kolefnisbindingu helstu trjátegunda á hvaða svæði sem er á láglendi Íslands þar sem skógrækt kemur til greina.

Skógarkolefnisreiknir er hugbúnaður sem aðstoðar við að meta gróflega mögulega kolefnisbindingu nýskógræktar að teknu tilliti til stað­setningar á Íslandi. Hægt er að velja á milli þriggja landgerða og fimm trjátegunda sem allar eiga það sammerkt að vera helstu trjátegundir í skógrækt og eiga margra áratuga ræktunarsögu á Íslandi. Matið er byggt á þúsundum skógmælinga sem gerðar hafa verið á þessum trjá­tegundum á síðustu 20 árum um allt land. Binding, að frádreginni losun, er áætluð frá gróðursetningu fram til 50 ára aldurs. Ekki er gert ráð fyrir hefðbundnum grisjunum á þessum tíma.

Fyrir utan að geta valið trjátegund og landgerð þarf notandinn sums staðar á landinu að meta hvort landið er að jafnaði skjólgott eða ekki. Auk þess þarf að velja hvort borinn verður köfnunarefnisáburður á gróður­setninguna eða ekki. Ástæðan er sú köfnunarefni sem borið er á leiðir til losunar á hláturgasi (N2O) sem er mjög öflug gróðurhúsalofttegund. Gert er ráð fyrir 15 g af nituráburði á hverja plöntu við gróður­setningu og dreifingu 80 kílóa á hektara fimm árum eftir gróðursetningu.

Hafa þarf í huga að Skógarkolefnisreiknirinn er einungis ætlaður til að gefa vísbendingar um vænta kol­efnis­bindingu nýskógræktar. Ef ganga á lengra og fara út í einhvers konar áætlanagerð þarf að leita til skógfræðinga sem hafa reynslu af áætlanagerð í skógrækt, helst á viðkomandi svæði. Skógarþjónustusvið Skógræktarinnar og nokkur skógræktarfélög bjóða upp á slíka þjónustu. Hvorki Skógræktin né höfundar Skógarkolefnisreiknisins geta ábyrgst að vænt binding gangi að fullu eftir á völdu svæði þar sem ekki er tekið tillit til allra þeirra þátta sem áhrif hafa á þrif, vöxt og kolefnisbindingu trjágróðurs.

Vefslóð Skógarkolefnisreiknis er reiknivel.skogur.is.

Texti: Pétur Halldórsson