Skógræktarfélag Reykjavíkur og Nýsköpunarsjóður námsmanna hafa veitt styrki til að vinna nýtt rannsóknaverkefni á lífríki asparskóga. Verkefninu er stýrt af Bjarna Diðrik Sigurðssyni, skógvistfræðingi á Mógilsá, og Kesöru Anamthawat-Jónsson, prófessor í grasafræði við Líffræðiskor Háskóla Íslands. Verkefnið verður unnið í Tilraunaskóginum í Gunnarsholti á Rangárvöllum, í nánu samstarfi Háskóla Íslands, Rannsókastöðvar skógræktar á Mógilsá, Skógræktarfélags Reykjavíkur og Landgræðslu ríkisins.

Alaskaösp er ein af þeim trjátegundum sem mest eru notaðar í borgarskógrækt og í útivistarskógrækt á Íslandi. Hin síðari ár hafa menn einnig byrjað að gróðursetja hana til viðarframleiðslu.  Nú er svo komið að alaskaösp er næst mest gróðursetta lauftré landsins á eftir íslensku ilmbjörkinni. 

Til rannsóknanna hefur verið ráðinn líffræðinemi á lokaári; Jón Ágúst Jónsson frá Ásmundarstöðum í Holtum. Hann mun næstu þrjá mánuðina vinna ýtarlegar rannsóknir á fuglalífi, skordýrum og gróðurfari skógarins. Tilraunaskógurinn er 13 ára þétt gróðursetning af alaskaösp sem farin er að nálgast fyrstu grisjun. Sambærilegar umhverfisrannsóknir fóru fram í skóginum á árabilinu 1991-1995, sem Jón Ágúst mun nýta til samanburðar. Hér er því komin fyrsta vöktun á íslensku skóglendi þar sem nákvæmlega er fylgst með þeim breytingum sem eiga sér stað á öðru lífríki samfara skógrækt.