Mývetnskt mólendi (Mýmó) er heiti á rannsóknarverkefni sem Rannsóknastöðin á Mógilsá er þátttakandi í. Samstarfsaðilar
eru Þura ehf, Skútustaðahreppur og Landgræðsla ríkisins. Rannsóknarverkefnið hófst formlega árið 2010 en hafði þá verið í undirbúningi í nokkurn tíma. Í upphafi ársins 2011 hlaut verkefnið tveggja ára styrk úr VAXNA (Vaxtarsamningi Norðausturlands). Verkefnisstjóri er Daði L. Friðriksson, héraðsfulltrúi hjá Landgræðslu ríkisins.

Markmið Mýmó verkefnisins er að kanna möguleika á notkun íslensku viðartegundanna birkis og víðis til endurheimtar gróðurs á uppblásnum svæðum í Skútustaðahreppi. Landgræðslustarf í Skútustaðahreppi á sér nokkuð langa sögu og hefur að mestu snúist um að stöðva uppblástur og rof gróins lands. Endurheimt á náttúrulegum birkiskógi og kjarrlendi hefur hins vegar lítið sem ekkert verið sinnt. Ætlunin er að kanna hvernig best sé að standa að þess háttar endurheimt, þ.e.  að fá viðartegundirnar víði og birki inn í landgræðslusvæði. Nokkur sambærileg verkefni hafa farið fram hér á landi en flest þeirra þó utan eldvirka beltisins á Norðausturlandi. Hekluskógar eru sambærilegt verkefni á Suðurlandi en meginmarkmið þess verkefnis er að verja landið fyrir mögulegum áföllum vegna öskufalls með því að endurheimta náttúrulegan birkiskóg og kjarrlendi á stórum, samfelldum svæðum í nágrenni Heklu.

Texti: Brynhildur Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá
Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir