Ný brú hefur verið smíðuð í sumar í Langadal á Þórsmörk og fleiri brýr endurnýjaðar á öllu Þórsmerku…
Ný brú hefur verið smíðuð í sumar í Langadal á Þórsmörk og fleiri brýr endurnýjaðar á öllu Þórsmerkursvæðinu. Meira hefur verið hægt að vinna þar í sumar en útlit var fyrir á tímabili í vor. Bæði hafa verið ráðnir fleiri sumarstarfsmenn til Skógræktarinnar en einnig hefur ræst úr með ferðir sjálfboðaliða frá útlöndum. Ljósmynd: Charles J. Goemans

Vinna við stígagerð og viðhald á Þórsmörk hefur gengið vel í sumar. Hópur sumarstarfsfólks hefur verið þar að störfum fyrir tilstilli atvinnuátaks stjórnvalda en eftir að liðkast fór um ferðalög fólks til landsins hafa sjálfboðaliðar bæst í hópinn. Þrátt fyrir veirufaraldurinn náðist að skipuleggja sex vikna sjálfboðastarf á svæðinu í sumar.

Veirufaraldurinn setti stórt strik í reikninginn við undirbúning starfsemi Skógræktarinnar á Þórsmörk þetta árið. Þegar ljóst varð að starf sjálfboðaliða sem ráðnir höfðu verið til dvalar og starfa á Þórsmerkursvæðinu í sumar væri í uppnámi var um hríð óvíst hvað yrði um öll þau brýnu verkefni sem bíða á hverju ári.

Starfið hófst í nokkurri óvissu í maímánuði með hefðbundinni undirbúningsvinnu í starfstöð Skógræktarinnar í Þjórsárdal. Þar er timbur úr íslensku þjóðskógunum tekið til vinnslu og unninn efniviður í tröppur, palla, stikur og mannvirki sem stýra vatnsrennsli og draga úr hættu á vatns- og vindrofi.

Í sumarbyrjun var líka unnið að söfnun gagna í GIS-landupplýsingakerfi sem gagnast við kortlagningu og áætlanagerð meðal annars. Unnið var að undirbúningi nýs útivistarkorts þar sem meðal annars verða hjólaleiðir. Einnig var ráðist í viðhald og endurbætur í starfstöð Skógræktarinnar í Langadal þar sem eru grunnbúðir sjálboðahópanna.

Sjálfboðaliðar bætast í hópinn

Margir af þeim sjálfboðaliðum sem valdir höfðu verið til starfa í sumar völdu að fresta för til næsta árs og vonandi verða aðstæður þá aðrar í heiminum. Í staðinn gerðu atvinnuátaksverkefni stjórnvalda Skógræktinni kleift að ráða fleira sumarstarfsfólk en venjulega til starfa. Góður hópur sumarstarfsfólks hefur unnið gott starf í sumar á Þórsmerkursvæðinu.

En ekki fór þó svo að starf sjálfboðaliðanna væri alveg fyrir bý þetta árið. Strax í júní tóku að tínast til landsins sjálfboðaliðar þegar liðkað var til fyrir ferðalögum til landsins. Vinnusömum höndum hefur því smám saman verið að fjölga á Þórsmörk. Segja má að allt hafi fallið í réttar skorður um 20. júlí því þá hófst sex vikna törn sjálfboðahópa sem tókst með endurskipulagningu að setja saman þrátt fyrir veirufaraldurinn. Því er óhætt að segja að ræst hafi úr með verkefnin á Þórsmerkursvæðinu í sumar eftir margra mánaða óvissutíma.

Endurbætur á Valahnúki og Fimmvörðuhálsi

Það sem af er sumri hefur annars vegar verið lögð áhersla á að leggja stein- og timburtröppur í gönguleiðunum á Valahnúk og hins vegar almennt viðhald á gönguleiðinni um Fimmvörðuháls og endurbætur á merkingum þar. Eins og venjulega hafa sjálfboðaliðar líka tekið þátt í gróðursetningu. Þetta gera þeir meðal annars til að vega á móti kolefnislosun ferðalaga sinna en í þetta sinn var einnig unnið við gróðursetningu kynbættra asparklóna í móðurreiti á Tumastöðum í Fljótshlíð.

Hóparnir hafa tekið myndir sem birtar hafa verið á vef sjálfboðastarfsins á Þórsmörk, Thórsmörk Trail Volunteers. Við sjáum meðal annars brúarsmíði og varðeld á tjaldsvæðinu í júlíblíðunni en líka myndir af stormasömum og blautum dögum það sem af er ágústmánuði. Þrátt fyrir veðrið síðustu daga gengur starfið vel og allir glaðir í regngöllunum. Fleiri myndir má sjá á umræddum vef.

Texti: Pétur Halldórsson
Heimild og myndir: Thórsmörk Trail Volunteers