Asa-rannsóknarstöðin.
Asa-rannsóknarstöðin.

Ráðstefna NordGen Forest 20.-21. september í Svíþjóð

Árleg ráðstefna NordGen Forest fer fram í Växjö í Svíþjóð 21.-22. september. Í þetta sinn verður fjallað um endurnýjun bland­aðra skóga og kosti þeirra fyrir efnahag, líffjölbreytni og aðlögun að loftslags­breyt­ing­um. Meðal umræðuefna verður skógræktarskipulag, skógarumhirða og -nytjar, vistfræði, skemmdir, skaðvaldar og markaðstækifæri fyrir viðarafurðir.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, ríður á vaðið á fyrri degi ráðstefnunnar, og ræðir um samstarfs­áætl­un norrænu ráðherra­nefnd­ar­inn­ar í skógar­mál­um, Nordic Forest Solutions, með hlið­sjón af blönd­uðum skógum. Því næst spyr Tove Hult­berg hjá sænska landbúnaðar­ráðu­neyt­inu hvað sé náttúrlegt og fjallar um sam­setn­ingu skóga og breytingar á landnotkun á Norðurlöndunum síðustu 5.000 árin.

Síðan rekur eitt erindið annað, hvert öðru áhugaverðara, um áhrif blöndunar tegunda á vöxt, skipulag mjög gjöfulla blandskóga, mismunandi viðarnotkun, aðlögun að loftslagsbreytingum og viðbrögð við þeim hættum sem steðja að norðlægum skógum, rætt verður um sveppasjúkdóma, lauftrjátegundir til endurræktunar skóga og fleira og fleira. Meðal frummælenda verður líka Hreinn Óskarsson, sviðstjóri samhæfingarsviðs Skógræktarinnar og framkvæmda­stjóri Hekluskóga, og talar um gildi skóggræðslu fyrir útivist og dægradvöl á Íslandi.

Á dagskrá ráðstefnunnar er einnig heimsókn í Asa-rannsóknarstöðina í nágrenni Växjö og skógarbýlið Tagels gård þar sem hlýtt verður á þrjú erindi. Sjóðurinn Rappe von Schmiterlöwska Stiftelsen rekur býlið með því meginmarkmiði að ýta undir rannsóknir í landbúnaði og skógrækt.

Nánari upplýsingar um ráðstefnu NordGen Forest í Växjö er að finna í meðfylgjandi dagskrá.

Á dagskrá ráðstefnunnar er heimsókn að Tagels gård þar sem eru stundaðar
landbúnaðar- og skógræktarrannsóknir.

Texti: Pétur Halldórsson