Hér má sjá 27 ára gamalt kynbætt birki í Finnlandi. Um 400 tré standa eftir á hverjum hektara og bíð…
Hér má sjá 27 ára gamalt kynbætt birki í Finnlandi. Um 400 tré standa eftir á hverjum hektara og bíða lokahöggs. Ljósmynd: Brynjar Skúlason

Finnar hafa lengi verið þekktir fyrir ræktun sína á fallegu birki til iðnaðarnota, ekki síst í krossvið. Til að auka gæði og vaxtarþrótt birkisins sem ætlað er til gróðursetningar er notast við sérstakt kynbætt úrvalsbirki. Framleiðsla fræsins fer fram í gróðurhúsum.

Í núverandi frægarði, sem ætlaður er fyrir Suður- og Mið-Finnland, voru upphaflega valin 14 þekkt úrvalstré til að vera foreldrar. Búnir voru til 149 alsystkinahópar og þeir bornir saman í 9 afkvæmatilraunum. Á grundvelli þessarar rannsóknar var ákveðið hvaða pörun hentaði best. Valdar voru 7 alsystkinalínur til að standa undir fræframleiðslunni sem eru þá afkomendur 14 foreldra. Víxlunin gerist þannig að foreldratrjánum tveimur fyrir hverja systkinalínu er komið fyrir í hólfum inni í gróðurhúsi þar sem þau víxlfjróvgast án þess að frjó geti borist út eða inn í rýmið.

Alsystkynalínurnar sjö eru nú framleiddar í þremur gróðurhúsum. Þeim var komið fyrir árið 2014 en hafa framleitt fræ síðan 2017. Fyrir sáningu er fræinu frá öllum hópunum blandað saman til að tryggja að erfðamengi gróðursettra plantna samanstandi af 14 foreldrum. Þessar kynbættu alsystkinalínur vaxa um 30% hraðar en lítt kynbætt birki gerir og auk þess eru trén beinni. Heppilegur gróðursetningarþéttleiki er talinn vera um 1600 tré/ha. Fyrst er grisjað niður í 800 tré/ha og því næst niður í 400 tré/ha sem er sá fjöldi sem bíður lokahöggs. Það sem helst dregur úr finnskum bændum að gróðursetja meira hengibirki er hættan á að elgurinn spilli trjánum í uppvextinum.

Texti: Brynjar Skúlason