Forest Europe hvetur fólk nú til að vera með í herferð undir þessum kjörorðum, „ræktum græn störf“. Herferðin hefst formlega á alþjóðlegum degi kvenna og stúlkna í vísindum föstudaginn 11. febrúar og stendur næstu mánuði. Námsfólk og ungir sérfræðingar eru sérstaklega hvattir til að stefna á störf í skógargeiranum. Megintilgangur herferðarinnar er að vekja athygli á dæmum um góðan árangur og nýsköpun í grænum störfum. Sömuleiðis á herferðin að snerta við vandamálum á borð við kynjamisrétti og aðbúnað eða aðstæður vinnandi fólks.

En hvernig fer þessi herferð um að rækta græn störf fram? Jú, aðalvettvangur hennar er samfélagsmiðillinn Instagram (@foresteuropedotorg). Þar er skorað á fólk sem starfar nú þegar í skógargeiranum, að búa til einnar mínútu langt myndband og lýsa  grænum störfum sínum og deila því með myllumerkinu #GrowGreenJobs.

Búðu til einnar mínútu myndband um græna starfið þitt

Forest Europe hrindir herferðinni af stað með ríflega 30 myndböndum með dæmum héðan og þaðan og meðal annars er eitt myndband frá Skógræktinni. Myndböndunum verður dreift ásamt tengdu efni á samfélagsmiðlum en einnig verður reynt að ná beint til námsfólks og ungra sérfræðinga með öðrum leiðum, til dæmis þar sem eru útvarpsstöðvar á háskólasvæðum, prentmiðlar, hlaðvörp, streymisþjónustur, samstarfsnet og fleira.

Komdu í morgunkaffi!

Dagana 15.-18. febrúar er boðið upp á „morgunkaffi“ með fróðlegum 15 mínútna erindum á slaginu klukkan átta að íslenskum tíma til að upplýsa um viðburði sem tengjast herferðinni. Markmiðið er að líkja með þessu eftir stemmningunni þegar fólk hittist og spjallar í morgunkaffi í upphafi vinnudags. Áhugasamir geta skoðað þessa viðburði fyrir fram og valið það sem hugurinn stendur til.

Hægt er að fylgjast með þessu öllu á samfélagsmiðlum Forest Europe. Dario Berrio, sem fer fyrir herferðinni, tekur við fyrirspurnum á netfanginu dario.berrio(at)foresteurope.org ef þörf er á.

Vefmálþing á alþjóðlegum degi skóga

Þema alþjóðlegs dags skóga, 21. mars 2022, tengist timbri og sjálfbærni. Yfirskriftin er á ensku Choose sustainable wood for people and the future, sem á íslensku gæti útlagst sem svo: Veldu sjálfbæran við fyrir fólkið og jörðina!

Málþing um skógarúttektir og ástand skóga verður haldið á vefnum þennan dag kl. 12-13.30 að íslenskum tíma og hægt er að skrá sig til þátttöku hér.

Texti: Pétur Halldórsson