Dagana 20.–24. ágúst s.l. var haldinn á Jótlandi í Danmörku ársfundur Norræna skógarsögufélagsins. Að þessu sinni  sóttu fundinn um 26 fulltrúar skógræktarstofnana frá Norðurlöndum. Megin umfjöllunarefni fundarins var Fælles rödder-fælles fremtid“. Á fjórum fundardögum var ferðast vítt og breitt um Jótland og margt var skoðað og rætt. Tengsl danska Heiðafélagsins við ræktun jósku heiðanna í lok 19. aldar voru gerð góð skil. Heimsóttur var Minningardalur Heiðafélagsins, þar sem komið hefur verið fyrir bautasteinum þeirra manna sem dýpst spor hafa markað í skógræktarsögu Dana. Fundurinn hófst norður í Álaborg og endaði suður við þýsku landamærin við Sönderborg.  

Á málþingi sem haldið var í tengslum við ársfundinn var m.a. fjallað um vísindalega skógfræði á Norðurlöndum. Frummælendur um efnið voru sammála um að á öllum Norðurlöndunum mætti sjá áhrif frá hinni þýsku skógfræði sem barst til Norðurlanda á nýöld, eða um 1600, í mismiklum mæli eftir löndum. 

Helgi Sigurðsson dýralæknir og sagnfræðingur flutti framlag Íslands á ráðstefnunni og fjallaði um hin sterku tengsl skógræktar á Íslandi við danska skógrækt í upphafi 20. aldar. Fundarmenn heimsóttu m.a. Stendalskóga en þangað hafði Hannes Hafstein ráðherra farið með þingmönnum frá Íslandi árið 1906 til þess, m.a. að kynnast af eigin raun því sem Heiðafélagið danska hafði áorkað í ræktun jósku heiðanna. Þingmennirnir fóru ferð þessa í boði danska þingsins. Segja má að sú ferð íslenskra þingmanna á danska grund hafi leitt til þess að Alþingi samþykkti lög um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands árið 1907.

Á ferð um Suður Jótland  vakti sérstaka athygli samstarf skógræktar og sveitarfélaga um ræktun borgarskóga. Danir eru með áform um að auka skógarþekju Danmerkur um 10–15% á næstu áratugum. Ákveðið hefur verið að markmið aukinnar skógræktar skuli fyrst og fremst vera að skapa skilyrði til útivistar og efla tengsl almennings við skóga og náttúru landsins.

Í lok vel skipulagðrar ráðstefnu var íslenska sendinefndin hvött til þess að stuðla að varðveislu skógarminja á Íslandi og stofna hið fyrsta skógarminjasafn. Þátttakendur frá Íslandi á ráðstefnunni voru Jón Loftsson skógræktarstjóri, Hallgrímur Indriðason skipulagsráðunautur og Helgi Sigurðsson dýralæknir og sagnfræðingur. Tilkynnt var að næsti ársfundur Skoghistorisk forening verði í Norður Noregi haustið 2009.