Fjölbreytni í skógarnytjum í víðu samhengi er viðfangsefni ráðstefnu sem samtök norrænna skógarkvenna standa fyrir 12. mars. Skipulögð hefur verið staðbundin dagskrá í hverju landi fyrir sig en einnig fylgjast þátttakendur í öllum löndunum með sameiginlegum fyrirlestrum í streymi og samantekt í lok ráðstefnunnar.

Félög skógarkvenna í Noregi, Svíþjóð og á Íslandi standa sameiginlega að ráðstefnunni. Norska félagið – Kvinner i skogbruket – er formlega gestgjafi ráðstefnunnar, en vegna óvissu af völdum veirufaraldursins var ákveðið að halda hana að hluta í fjarfundi. Fern samtök skógarkvenna standa að samstarfi undir merkjum Nordiske skogskvinner, Skógarkonur á Íslandi, sænsku félögin Spillkråkan og Skogskvinnorna (Värmland) og loks áðurnefnt norskt félag, Kvinner i skogbruket. Unnið hefur verið að því að ná tengslum við finnskar skógarkonur og munu þær flytja kveðju frá Finnlandi í lok ráðstefnunnar. Markmiðið er að samtökin Nordiske skogskvinner verði heildarsamtök skógarkvenna á öllum Norðurlöndunum.

Vinnustofa í hverju landi

Fyrirkomulag ráðstefnunnar er þannig að hvert land verður með staðbundna dagskrá þar sem einn liðurinn er streymi frá fyrirlestrum og samantektum í hverju landi fyrir sig. Dagskráin hefst klukkan níu að íslenskum tíma með fyrirlestrum í streymi frá öllum löndunum þremur. Að hádegishléi loknu verður létt og skemmtileg vinnustofa en viðfangsefni hennar verður kynnt er nær dregur. Dagskrá lýkur svo með samantekt frá hverju landi og kveðju frá Finnlandi og ráðstefnulok verða um kl. hálffjögur

Dagskrá íslensku samtakanna, Skógarkvenna, verður í Gamla salnum að Elliðavatni. Allar konur í skógargeiranum og hjá skógræktarfélögum eru hvattar til að taka daginn frá og er velkomið að skrá sig til leiks nú þegar.

Fyrstu upplýsingar (á norsku) má finna á vef norsku samtakanna Kvinner i skogsbruket.

Texti: Pétur Halldórsson