Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritar Bratislava-yfirlýsinguna. Lj…
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritar Bratislava-yfirlýsinguna. Ljósmynd af vef Stjórnarráðsins

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tók þátt í áttunda ráðherrafundi Forest Europe sem fram fór nú í vikunni. Þar undirritaði hann svokallaða Bratislava-yfirlýsingu um vernd og mikilvægi skóga. Forest Europe er samstarf ráðherra sviði skógarmála í álfunni og hefur það markmið að efla og samhæfa vernd, ræktun og nýtingu skóga í Evrópu. Íslendingar taka með undirrituninni heils hugar undir allt sem stendur í yfirlýsingunni enda er skógrækt á Íslandi í anda hennar.

Fjöldi ráðherra skógarmála í Evrópu sat fundinn sem fram fór með rafrænum hætti en var stýrt frá Bratislava, höfuðborg Slóvakíu. Bratislava-yfirlýsingin sem ráðherrarnir undirrituðu felur meðal annars í sér að stefnt er að því að stöðva hnignun líffjölbreytni í skógum, breiða skóga út á ný og viðurkenna til fulls hið mikilvæga hlutverk sem skógar gegna í vernd og uppbyggingu jarðvegs. Jafnframt felur hún í sér staðfestingu á að skógar leiki stórt hlutverk við að sjálfbærni sé náð, þar á meðal í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Einnig er viðurkennt að hagaðilar hafi mikilvægu hlutverki að gegna í leiðinni að sjálfbærni, sömuleiðis að rannsóknir í skógrækt séu mikilvægar ásamt miðlun á vísindalegri þekkingu.

Með undirritun sinni staðfestu ráðherrarnir einnig áframhaldandi vinnu og samstarf um þætti skógræktar á borð við gerð landsáætlana fyrir skógrækt, aðlögun skóga að loftslagsmálum og stuðning við hringrásarhagkerfið.

Rauðgreni þjakað af barkarbjöllu í skógi við þorpið Bílá Třemešná í norðanverðu Tékklandi, skammt frá pólsku landamærunum. Evrópsaka barkarbjallan herjar á rauðgreni víða á sunnanverðu útbreiðslusvæði rauðgrenis í álfunni. Mikilvægt er að bregðast við með ræktun kvæma sem þola barkarbjölluna betur eða leggja áherslu á aðrar trjátegundir sem þola hlýrra loftslag betur. Ljósmynd: Bjarki Þór Kjartansson„Með þessari yfirlýsingu erum við að efla samstarf í Evrópu á sviði skóga, skógverndar, endurheimtar skóga og nýskógræktar. Þetta er mikilvægur liður í að styðja við stefnu um náttúrumiðaðar lausnir í loftslagsmálum þar sem á sama tíma er horft til loftslagsmála, endurheimtar líffræðilegrar fjölbreytni og að sporna gegn landeyðingu með samhæfingu þessara stóru umhverfismála að leiðarljósi, en ég hef lagt ríka áherslu á þessa nálgun í ráðherratíð minni. Það var jafnframt ánægjulegt að heyra hversu víða hefur komið í ljós síðasta árið hvað skógar sem útivistarsvæði geta haft jákvæð áhrif á heilsu og lífsgæði fólks,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra í frétt á vef ráðuneytisins.

Aðlögun skóga að loftslagsbreytingum rauði þráðurinn

Aðalsteinn Sigurgeirsson fagmálastjóri var einn þriggja fulltrúa sem sóttu fundinn fyrir hönd Skógræktarinnar. Hann segir að fundurinn hafi verið góður. Ráðherrar aðrir fulltrúar nær allra aðildarlandanna hafi tekið til máls og samhljómur almennt verið í máli þeirra. Aðlögun skóga að loftslagsbreytingum hafi verið rauði þráðurinn í bæði erindum og umræðum enda mikilvægt viðfangsefni um þessar mundir að aðstoða skógarvistkerfin við að bregðast við hlýnun, tegundir að færa sig norðar eða ofar í fjöllin o.s.frv

Þá segir Aðalsteinn að einnig hafi verið gagnlegar pallborðsumræður, meðal annars með sérfræðingum frá þýsku loftslagsrannsóknamiðstöðinni Potsdam Institute for Climate Impact Research sem komið hafi með áhugaverð sjónarmið í umræðuna. Á vef áttunda ráðherrafundarins má horfa og hlusta á erindi og umræður.

Ýmsir kostir eru við þetta evrópska samstarf fyrir skógrækt á Íslandi samhliða samstarfi innan Norðurlandanna að mati Aðalstein. Hann bendir á að í skógrækt á Íslandi sé átt við nokkuð önnur viðfangsefni en í skógarlöndum Skandinavíu svo sem hnignun jarðvegs vegna skógareyðingar. Hér er verkefnið að breiða út skóglendi á ný og koma aftur upp öflugum vistkerfum með mikla fjölbreytni í lífríkinu. Innan Forest Europe samstarfsins eru lönd, einkum við Miðjarðarhaf, sem eiga við svipuð vandamál að etja og ásamt þeim getum við talað fyrir mikilvægi þess að vernda jarðveg og byggja jarðvegsauðlindina upp á ný.

Nánar um Forest Europe

Skógar gegna mikilvægu hlutverki við að knýja eðlilega hringrás vatns, m.a. með því að hægja á rennsli vatns á yfirborði, tempra uppgufun o.fl. Myndin er frá Rúmeníu. Ljósmynd: Pétur HalldórssonÍ minnisblaði sem Skógræktin sendi ráðuneytinu kemur fram að Forest Europe er röð ráðherrafunda um skóga í Evrópu sem hófst í Strassborg í Frakklandi árið 1990. Íslendingar hafa sótt alla þessa fundi og undirritað allar yfirlýsingarnar. Þrír ráðherrar hafa farið á fundi fyrir hönd Skógræktarinnar en oftast ráðuneytisstarfsmaður og einn til tveir fulltrúar frá Skógræktinni. Fundurinn í Bratislava sem hófst í gær og lýkur í dag, 16. apríl, var haldinn með rafrænum hætti.

Markmið Forest Europe eru að efla og samhæfa vernd, ræktun og nýtingu skóga í Evrópu. Því er nánar lýst þannig á vef samstarfsins að móta skuli framtíð þar sem allir evrópskir skógar skipti miklu máli, séu frjósamir og gegni margvíslegu hlutverki. Skógarnir eiga að hafa virk áhrif á sjálfbæra þróun með því að styðja við velsæld og vellíðan fólks, heilbrigt umhverfi og efnahagsþróun í Evrópu og um allan heim. Þannig á að nýta einstakan mátt skóganna til að styðja við grænt hagkerfi, afkomu fólks, aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, verndun líffjölbreytni, vatnsgæði og baráttuna gegn eyðimerkurmyndun, samfélaginu til heilla.

Bratislava-yfirlýsingin hefst á því að rifjaðar eru upp allmargar fyrri samþykktir ráðherrafundanna. Síðan koma fjögur meginatriði sem ráðherrar skógarmála í Evrópu staðfesta:

  • Að ræktun skóga verði sjálfbær með öllu því sem sjálfbærni tilheyrir
  • Mikilvægan þátt skóga, bæði í einkaeigu og opinberri eigu, til að sjálfbærni nái fram að ganga
  • Mikilvægi þátttöku hagaðila til að sjálfbærni nái fram að ganga
  • Stuðning við rannsóknir í skógrækt og mikilvægi miðlunar á vísindalegri þekkingu

Því næst eru í yfirlýsingunni alllangir listar sem staðfesta áframhaldandi vinnu og samstarf að hinum ýmsu þáttum skógræktar. Meðal þess er að gera landsáætlanir í skógrækt, fást við aðlögun skóga að loftslagsmálum, styðja við hringrásarhagkerfið og margt fleira.

Skógrækt á Íslandi er stunduð í anda þessarar yfirlýsingar og undirritun ráðherra staðfestir að Íslendingar taka heils hugar undir það sem í henni stendur.

Texti: Pétur Halldórsson