Brotnar stafafurur eftir vetrarveður. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Brotnar stafafurur eftir vetrarveður. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Talsvert er um skemmd og brotin tré í Hallormsstaðaskógi eftir nýliðinn vetur. Skógræktarstjóri segir þó í spjalli við vefmiðilinn Austurfrétt að ekki hafi orðið stórtjón en eftir því sem trén hækka og stormar verða tíðari megi búast við meiri skemmdum af þessum toga.

Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurfréttar, ræðir við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra og Þór Þorfinnsson, skógarvörð á Hallormsstað. Þór segir við fréttamiðilinn að hann hafi sjaldan séð svona mikið af föllnum trjám í skóginum. Fram kemur að staðan sé sú um allt land að óvenjumörg tré séu brotin. Tíunduð eru hvassviðri sem gengu yfir landið í janúar og febrúar og blotasnjó á Austurlandi í byrjun mars. Þröstur segir að þetta sé þó ekki stórtjón og ekki hafi heilu skógarnir skemmst. „Þetta eru kannski 2-3 tré á sama staðnum en það lítur alltaf illa út,“ segir  skógræktarstjóri.

Aðlagast þurfi aðstæðum

Brotið sitkagreni í Hallormsstaðaskógi. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonÞröstur ræðir um tvenns konar skemmdir á trjánum. Stökkar tegundir eins og lerki brotni gjarnan þar sem einhver veikleiki sé í stofni, til dæmis vegna kals. Aðrar tegundir geti hins vegar fokið á hliðina og rifnað upp með rótum eins og dæmi eru um hjá stafafuru. Með betri efniviði stafafuru hafi verið dregið úr hættunni á þessu. Auk betra vals á tegundum til ræktunar megi draga úr hættu á storm- og snjóskemmdum með því að rækta tegundir af strandsvæðum í Norður-Ameríku eins og sitkagreni og alaskaösp, rækta trén ekki þar sem jarðvegur sé grunnur, til dæmis stutt niður á klöpp og í þriðja lagi að fara varlega í grisjun því opin svæði í skógum búi til rými fyrir vind.

Fram kemur í spjallinu við Austurfrétt að Þröstur telji  rétt að huga að þessum aðgerðum nú, enda séu tíðari stormar einn fylgifiska loftslagsbreytinga. Þá séu íslenskir skógar líka að stækka og taki þar með á sig meiri vind. Vísað er til skemmda sem urðu einnig veturinn 2019-2020 þegar miklar trjáskemmdir urðu á Norðurlandi af bleytusnjó og stormum. „Þetta er ekkert óviðbúið,“ segir Þröstur. „Trén okkar eru orðin það stór og gömul að þau eru komin upp í vindinn. 40 m/s eru nóg til að brjóta tré. Það hafa alltaf brotnað tré á Íslandi undan snjó, meðal annars birkið. Þetta sýnir að Ísland er orðið alvöru skógræktarland. Það þýðir að við eigum eftir að sjá stórskaða. Í byrjun árs 2005 gekk mikill stormur, nefndur Gudrun, yfir Svíþjóð og felldi heilu skógana þar.“

Náttúrleg grisjun

Benda má á, að stormfall, snjóbrot og aðrar skemmdir á trjám í skógum er í raun hluti af aðferðum náttúrunnar til að grisja skógana. Sem betur fer er það sjaldnast þannig að meirihluti trjánna í skóginum skemmist, eins og skógræktarstjóri bendir á í viðtalinu, heldur verða skemmdir á stökum trjám sem í kjölfarið verða undir í samkeppninni við hin trén í skóginum. Trén sem eftir verða hafa þá meira olnbogarými til að halda áfram að vaxa í skóginum. Slík grisjun er vissulega ekki eins skipulögð og grisjun sem unnar eru eftir skógfræðilegum áætlunum en með einum eða öðrum hætti sér náttúran um sig á endanum. Gjarnan eru veðurskemmdir í skógum verstar fyrir okkur mannfólkið sem horfum á ósköpin. Skógurinn sjálfur hverfur ekki þótt stöku tré skemmist eða falli. Eins dauði er annars brauð í skóginum líka.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson