Íslenskur nytjaskógur ætti ekki síður að geta verið vænleg fjárfesting til langs tíma en bandarískur…
Íslenskur nytjaskógur ætti ekki síður að geta verið vænleg fjárfesting til langs tíma en bandarískur. Og loftslagsbreytingar gætu gert skóginn að enn betri fjárfestingarkosti með vaxandi kröfu um bindingu gróðurhúsalofttegunda. Mynd: Pétur Halldórsson

Sveigjanlegt og hægt að selja þegar verð er hátt

Fjárfesting í skógi gefur örugga ávöxtun til lengri og skemmri tíma að mati sérfræðinga ThinkAdvisor. Kosturinn við timburskóga sem fjárfestingarkost er sveigjanleikinn. Ólíkt öðrum landbúnaðarafurðum má uppskera timbur þegar markaðsverð er hagstætt en láta skóginn bíða þegar verðið er lágt. Loftslagsbreytingar ættu að gera timburskóga að enn betri fjárfestingarkosti frekar en hitt.

Þetta kemur fram í  umfjöllun á vefnum ThinkAdvisor.com sem er upplýsingavefur um fjárfestingar og fjárfestingaráðgjöf. Þar er bent á að vissulega hafi þróunin á húsnæðismarkaðnum í Bandaríkjunum á síðasta ári ekki boðað sérlega gott fyrir timburauðlindina. En svo er gripið til líkingamálsins. Eitt ár á markaði sé aðeins einn árhringur á langri æfi trésins.

Fjárfestingar í sjálfbærum greinum hafa farið vaxandi í heiminum og því er spáð að sú þróun haldi áfram. Hlutur slíkra fjárfestinga stækkar sífellt á fjárfestingarmarkaðnum. Í fréttinni á vef ThinkAdvisor er vitnað í nýja skýrslu frá greiningarfyrirtækinu Morningstar þar sem fram kemur að meira en sex þúsund milljarðar Bandaríkjadollara séu nú bundnir í eða í umferð með fjárfestingum sem tengjast sjálfbærni með einum eða öðrum hætti. Fram kemur einnig að skógviður njóti vaxandi trausts sem fjárfestingarkostur.

Haft er eftir Doug Donnell, yfirmanni skógviðarfjárfestinga hjá US Trust bankanum að þar á bæ líti menn á timburskóga sem langtímafjárfestingar sem henti vel mjög auðugu fólki eða sjóðum. US Trust, sem er hluti af Bank of America, mælir að sögn Donnells með því við viðskiptavini sína að þeir hreyfi ekki við þessum fjárfestingum fyrstu tíu árin svo ná megi sem mestri ávöxtun. Lágmarksfjárfestingin er auk þess fimm milljónir dollara.

Og það getur borgað sig að punga út þvílíkum fjárhæðum því Donnell segir algengt að ávöxtunin sé milli átta og tíu prósent á ári.

Annað eignastýringarfyrirtæki vestra sem sýslar með skógarfjárfestingar heitir GMO og gaf nýlega út nýja sjö ára spá um raunávöxtun. Þar er því spáð að timbur verði sá eignaflokkur sem ávaxtist best. Áætlað er að árleg ávöxtun af timburfjárfestingum verði 4,8% næstu sjö ár. Aftur á móti spáir fyrirtækið tapi á stærri sem smærri áhættufjárfestingum í Bandaríkjunum á sama tímabili.

Mestu skiptir þegar fjárfest er í timburskógum, að sögn Donnells, að láta þær ekki frá sér of snemma. Þar vísar hann til þess sem lesendur vefsins skogur.is ættu að vita mætavel að ef í skóginum standa ung tré eru takmörk fyrir því hvað hægt er að fá fyrir viðinn af þeim. Úr þeim verður aðallega kurlviður. Vestanhafs fengjust um sex til tíu dollarar fyrir tonnið. En ef trjánum er leyft að vaxa verða þau verðmætari. Ef fjárfestirinn reynir að selja strax eftir þrjú ár getur hann ekki búist við að fá þessa áðurnefndu ávöxtun upp á átta til tíu prósent.

Ókosturinn við fjárfestingar í skógi er hversu svifaseinar þær eru. Það tekur tíma að kaupa eignir sem þessar og selja þær auk þess sem kröfur eru settar um háa lágmarksfjárfestingu. Donnell bendir á að fyrir smærri fjárfesta eða þá sem ekki vilja bíða lengi séu í boði skógartengdir fjárfestingarmöguleikar í verðbréfasjóðum sem einbeita sér að fyrirtækjum í timburiðnaði eða í fasteignasjóðum sem versla með timbur. Þá séu menn aftur á móti meira háðir sveiflum á hlutabréfamörkuðum en ef fjárfest er beint í timburskógi. Ef verðið tekur að falla á mörkuðunum þurfa þeir að bregðast við til að verja eigur sínar og geta ekki leyft sér þann munað að bíða með uppskeruna.


Doug Donnell tekur fram að bankinn fjárfesti eingöngu á norðanverðri Kyrrahafsströndinni, í Norðausturríkjunum og Suðausturríkjunum, með öðrum orðum á svæðum þar sem ekki eru viðvarandi vandamál eins og af barkarbjöllum eða öðru slíku. Hann mælir með því að fjárfestar kanni mögulega áhættu, svo sem af skaðvöldum, og velji eignir eða trjátegundir eftir því.

Þá er líka athyglisvert sem hann segir um loftslagsbreytingar, að þær muni líklega ekki hafa slæm áhrif á timburfjárfestingar. Á óvissutímum sé tilhneigingin sú að hræddir fjárfestar halli sér að timburskógum sem fjárfestingarkosti. Þetta eigi við á tímum loftslagsbreytinganna. Verði nýjar reglur settar um koltvísýringslosun bætist arðbær kolefnisbinding við möguleika þeirra sem eiga land til skógræktar.

Texti: Pétur Halldórsson