(Vísir, mið. 13 mars)

"Undanfarin áratug hefur umhverfisvernd í almannaþágu verið eitt að stefnumálum Olís. Hefur félagið með stuðningi sínum greitt götu ýmissa mála sem hafa varðað sambýli fólks við náttúru landsins. Flest þessara mála tengjast uppgræðslu og umhverfisvernd.

Það er Olís sérstakt ánægjuefni að koma að þessu málefni með Skógræktarfélagi Íslands. Stuðningur Olís er veittur á 75. afmælisári félagins og er því gjöf þess til Skógræktarfélagsins á þessum tímamótum.

Samningur þessara félaga er gerður til næstu 3 ára og verður árangur átaksins kynntur almenningi á hverjum tíma. Olís mun styðja þetta verkefni með 3ja milljóna króna framlagi á ári næstu 3 árin, samtals 9 milljónir króna. Að loknu þessu 3ja ára samningstímabili verður metið hvort frekara framhald verði á samstarfinu.

Með stuðningi Olís við Skógræktarfélag Íslands verður ráðist í að bæta aðstöðu við aðkomu, stígagerð og merkingar í Landgræðsluskógum með áherslu á að hægt verði að opna þessi svæði betur og auðvelda aðgang til útivistar fyrir almenning. Auk þess er það markmið samstarfsins að auka skilning á mikilvægi skógræktar á Íslandi.

Í upphafi síðasta áratugar hóf Skógræktarfélag Íslands ásamt aðildarfélögum sínum umfangsmikið átak á 120 stöðum víða um landið og kallað er Landgræðsluskógar.

Mörg þessara skógarsvæða hafa dafnað vel og eru nú farin að mynda skjól og skapa bætt útivistarskilyrði eins og til var ætlast. Því er brýnt að hugað sé strax að framkvæmdum sem stuðla að góðu aðgengi þannig að almenningur geti notið þessara svæða sem fyrst.

Á næstu árum mun útivistargildi þessara svæða vaxa hröðum skrefum í kjölfar skjóls af uppvaxandi trjám.

En til þess þarf að grisja svæði fyrir göngustíga og útivistarlundi, koma fyrir merkingum og aðstöðu fyrir gesti skógarins. Nú er rétti tíminn til þess að hefjast handa. því eftir því sem skógarsvæðin stækka og þéttast verður öll vinna við þau seinlegri og kostnaðarsamari.

Skógar Íslands eru í dag ein vinsælustu útivistarsvæði landsins. Sem dæmi má nefna að árlega heimsækja Heiðmörkina um 250 þúsund manns á öllum aldri, um 150 þúsund manns heimsækja Kjarnaskóg innan við Akureyri."