Skógrækt og skógræktarstefna reifuð

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kemur í opinbera heimsókn á Austurland mánudaginn 18. ágúst. Fyrir hádegi heimsækir hann höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins á Egilsstöðum og starfstöð skógarvarðarins á Hallormsstað.

Ráðherra skógarmála þekkist nú það boð sem Jón Loftsson skógræktarstjóri sendi honum á fyrsta degi hans í ráðherraembættinu, að heimsækja Skógræktina eystra. Meðal þess sem ráðherra og fylgdarlið hans verður frætt um í heimsókninni er kynbætt lerki sem mun flýta fyrir uppbyggingu skógarauðlindar Íslendinga og verkefnið Íslensk skógarúttekt þar sem safnað er grunngögnum vegna kolefnisbókhalds íslenskra skóga. Einnig verða ræddar við gestina hugmyndir um landsáætlun í skógrækt og viðarvinnslan á Hallormsstað kynnt.

Dagskrá ráðherraheimsóknarinnar til Skógræktarinnar verður annars sem hér segir.


 • 08.30     Flugvél frá Reykjavík lendir á Egilsstöðum.
 • 08.35     Ráðherra og fylgdarlið hitta starfsmenn Skógræktar ríkisins og Héraðsskóga og  aka saman í rútu sem leið liggur um Fljótsdalshérað að Hallormsstað. Þar býður Jón Loftsson skógræktarstjóri gesti velkomna og kynnir dagskrá.
 • 08.45     Fyrsti áfangastaður: Höfði.  Þröstur Eysteinsson, sviðstjóri þjóðskóganna og Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður rannsókna, kynna kynbótaverkefni Skógræktar ríkisins, Hrym og fleira. Arnór Snorrason, sérfræðingur á Mógilsá kynnir verkefnið Íslenska skógarúttekt, grunngögn vegna kolefnisbókhalds íslenskra skóga.
 • 09.15     Upp í rútu. Kynning á starfsemi Héraðs og Austurlandsskóga í rútunni á leiðinni. Ólöf Sigbjartsdóttir, framkvæmdastjóri Héraðs- og Austurlandsskóga
 • 09.30     Annar áfangastaður: Hafursá. Lárus Heiðarsson skógræktarráðunautur fræðir gesti um bilun, grisjun og útkeyrslu efnis úr ungum lerkiskógum. Á eftir verður boðið upp á kaffi og krásir úr skógi í skógi frá fyrirtækinu Holt og heiðar.
 • 10.00     Upp í rútu, áframhaldandi kynning á Héraðsskógum á leiðinni (Ólöf).
 • 10.15     Þriðji áfangastaður: Hallormsstaður. Þór Þorfinnsson skógarvörður kynnir úrvinnslu viðarafurða í sögunarmyllunni.
 • 10.45     Stutt ganga um trjásafnið í Mörkinni. Þröstur Eysteinsson, sviðstjóri þjóðskóganna, kynnir landsáætlun í skógrækt.
 • 11.20     Ekið að Hótel Hallormsstað.
 • 11.30     Hádegisverður á Hótel Hallormsstað.
 • 12.30     Rúta ekur hópnum á Egilsstaðaflugvöll
 • 12.50     Ráðherra og fylgdarlið hans taka bílaleigubíl og aka af stað til Reyðarfjarðar.

Viðarvinnsla á Hallormsstað