Gömul en hraustleg broddfura, myndin tekin af neðanverðum stofninum og í baksýn sjást skógi vaxnar h…
Gömul en hraustleg broddfura, myndin tekin af neðanverðum stofninum og í baksýn sjást skógi vaxnar hæðir
#Vesturameríkuskógar2013

Íslenskt skógræktarfólk skoðaði eldgamlar furur í Kaliforníu

Hvítufjöll rísa upp úr eyðimörkinni austast í Kaliforníu norðan Dauðadals. Þar er þjóðskógurinn Inyo National Forest. Góðir vegir liggja um þjóðskóginn, einn þeirra upp á hæstu tinda fjallgarðsins í rúmlega 3.000 m hæð yfir sjávarmáli, þar sem er að finna einhverjar dýrmætustu skógargersemar í heiminum, broddfururnar eldgömlu.

Broddfurur í skógi, ein stór hægra megin í forgrunni en gisinn skógurinn í baksýn.Broddfuru hefur nú verið skipt upp í tvær tegundir af flokkunarfræðingum, en þær eru nauðalíkar og heita enn báðar broddfura (e. bristlecone pine). Aðaltegundin, Pinus aristata, er útbreidd á tindum í sunnanverðum Klettafjöllum og er sú sem hefur verið ræktuð hérlendis. Hin broddfuran, Pinus longaeva, finnst aðeins á litlu svæði í Hvítufjöllum og þar innan um eru elstu tré heims. Sumir tala um að rauðgrenitré eitt í Svíþjóð eða nöturösp í Klettafjöllum séu elstu lífverur heims en í báðum tilvikum hafa trén endurnýjað sig með klónun, þ.e. vexti nýrra sprota og róta til skiptis. Það er enginn hluti þeirra núna sem er árþúsunda gamall. Þau eru eins og hamarinn hans afa, búið að skipta þrisvar um skaft og tvisvar um haus, en enn er þetta hamarinn hans afa. Þetta er því hálfgert plat.

Aldin broddfura með fúinn stofn en greinabrúska neðan til. Eyðimörk í baksýnBroddfururnar á tindum Hvítufjalla hafa hins vegar aldrei endurnýjað sig með klónun. Þær eru í raun fleiri þúsund ára gamlar. Sú elsta sem mælst hefur er 5.063 ára, talið að fræið hafi spírað árið 3051 fyrir Krist. Það er um 150 árum eftir að fyrst var farið að krota í leir í Mesópótamíu og um 100 árum eftir að fyrst var stofnað til faraódæmis í Egyptalandi, en gjarnan er litið á þessa atburði sem upphaf siðmenningar í hinum vestræna heimi. Landbúnaður hafði ekki borist til Norður-Evrópu á þeim tíma; þar var enn steinöld. Elstu fururnar líta ekki ósvipað út núna og þær gerðu  þegar Ísland byggðist.   

Gömul broddfura, fúinn stofn stendur upp úr miðju en lifandi greinar til hliðannaÞað er einstök upplifun að ganga um broddfurulundina á tindum Hvítufjalla. Hvert skúlptúr er stórkostlegra en það síðasta. Lundirnir eru gisnir þannig að hvert tré nýtur sín og trén eru bæði há og sver, miklu stærri en einnar nálar fururnar neðar í fjallshlíðunum. Nýliðun er lítil en þó var nokkuð um ung tré á svæðinu, e.t.v. aðeins fárra alda gömul. Fallnir bolir lágu einnig á jörðinni en eflaust tekur það margar aldir fyrir þá að fúna og hverfa í svo þurru loftslagi sem þarna ríkir. Eldingar eru algengasta skemmdar- og dánarorsök trjánna, en oftast drepa þær trén ekki alveg. Dauðir toppar sem einu sinni hafa orðið fyrir eldingu virka í kjölfarið sem eldingavarnir og leiða rafmagnið fram hjá lifandi vefjum trjánna. Ég mæli með því að allt íslenskt skógræktarfólk sem á þess nokkurn kost heimsæki broddfururnar í Hvítufjöllum.

Texti og myndir: Þröstur Eysteinsson
Kvikmyndataka: Hlynur Gauti Sigurðsson
Samsetning: Kolbrún Guðmundsdóttir
Fréttin var uppfærð 26.10.2021