Morgunblaðið fjallar um asparkynbætur Halldórs Sverrissonar

Kynbótaverkefni á alaskaösp hefur leitt í ljós að bestu einstaklingarnir geta vaxið um þrjá metra á fimm árum. Jafnframt er mikil viðarmyndun í stofni sem er mikilvægt fyrir til dæmis iðnviðarræktun. Morgunblaðið fjallaði á laugardag um þetta verkefni sem Halldór Sverrisson, sérfræðingur á Mógilsá, kynnti með veggspjaldi á nýafstaðinni fagráðstefnu skógræktar á Selfossi.

Mikilvægt er fyrir íslenska skógrækt að fá tegundir til ræktunar sem geta gefið af sér sem mest verðmæti á sem stystum tíma. Sú afurð sem gefur mest af sér úr íslenskum skógum er viðarkurl sem notað er í kísilmálmvinnslu hjá Elkem á Grundartanga. Fleiri ámóta verksmiðjur eru í undirbúningi. Alaskaösp er sú tegund sem einna helst eru bundnar vonir við í ræktun iðnviðar hérlendis en undanfarin ár hefur asparryð herjað á aspir um sunnan- og vestanvert landið. Í kynbótaverkefni því sem Halldór Sverrisson, sérfræðingur á Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá, hefur stjórnað virðist nú hafa tekist að fá fram klóna sem bæði þola betur asparryðið en venjuleg yrki af alaskaösp og vaxa líka miklu betur.

Slíkir klónar gætu gert iðnviðarskógrækt enn fýsilegri hér á landi og verið heppilegir til ræktunar orkuskóga líka ef slíkar hugmyndir kæmu upp. Þá mætti meðal annars nota trjáviðinn til framleiðslu á lífeldsneyti. Jafnframt geta hraðvaxnar aspir hentað vel í skjólbelti, sem götutré og margt fleira. Í frétt Morgunblaðsins segir Halldór Sverrisson meðal annars orðrétt:

„Ég vil ekki alhæfa eða taka of djúpt í árinni um nýju klónana, en ég sé ekki annað en vöxtur þeirra sé miklu hraðari en hjá eldri klónum, og algengt að hann sé 60-70 sentímetrar á ári.“

Nánar um þetta í frétt Morgunblaðsins frá 15. mars 2014. Smellið hér til að lesa fréttina.