Á vegg í skemmu ónefnds jólatrjáabónda vestur í Ameríku er þessi óður til gervijólatrésins skrifaður…
Á vegg í skemmu ónefnds jólatrjáabónda vestur í Ameríku er þessi óður til gervijólatrésins skrifaður og hvatning til fólks að velja heldur lifandi tré. Hér fylgir lausleg þýðing á þessum þarfa óði.

Fyrsti jólaboðskapurinn - lifandi íslensk jólatré eru best

Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Jólin nálgast þótt veðurfarið bendi ekki til þess. Úti dimmir þó dag frá degi og hátíð ljóssins kemur fyrr en varir. Þá setjum við upp lifandi íslenskt jólatré og skreytum það með ljósum og glingri.

Umhverfisáhrif jólatrjáa sem ræktuð eru á Íslandi eru sáralítil miðað við innflutt lifandi tré og hjóm eitt miðað við gríðarleg umhverfisáhrif gervijólatrjáa. Gervitrén eru úr plastefnum og margvíslegum efnum beitt til að ná fram áferð og eiginleikum sem ætlað er að líkja eftir lifandi trjám. Nær ómögulegt er að endurvinna gervijólatré og þrátt fyrir stór orð seljenda og framleiðenda um að trén endist árum saman er sjaldgæft að þau endist svo lengi að það vegi upp umhverfisáhrif þeirra miðað við lifandi tré. Oftast lenda þau fyrr en varir á sorphaugum þar sem þau eru urðuð.

Innflutt lifandi jólatré eru framleidd með mikilli notkun véla og hjálparefna svo sem skordýra- og illgresiseiturs sem safnast upp í náttúrunni og veldur í versta falli aukinni hættu á krabbameinum. Flutningur þeirra milli landa veldur koltvísýringsútblæstri. Plöntusjúkdómar og meindýr geta borist með lifandi jólatrjám og breiðst út í íslenskum skógum.

Lifandi íslensk jólatré spara hins vegar gjaldeyri fyrir samfélagið, skapa vinnu og tekjur í sveitum landsins, stuðla að bindingu koltvísýrings, styðja við aukna skógrækt í landinu, gefa góða lykt á heimilinu og hina sönnu jólastemmningu svo nokkuð sé nefnt. Öll rök hníga að því að fólk velji lifandi íslensk jólatré. Í tilefni af þessari fyrstu jólafrétt á skogur.is þetta árið birtist hér Óðurinn til gervijólatrésins sem sannarlega er ekki til dýrðar þessu tákni ofneyslu og ónáttúru olíuhagkerfisins. Framtíðin felst í lífhagkerfinu þar sem nýttar eru endurnýjanlegar auðlindir og séð til þess að jafnmikið eða meira verði til af nýjum gæðum og það sem eytt er. Þetta er lausleg þýðing á svipuðum vísum sem einhvers staðar standa skrifaðar á vegg í skemmu jólatrjáabónda vestur í Ameríku.

Óðurinn til gervijólatrésins

Allt mitt líf ég aldrei sé
svo arman hlut sem gervitré,
gersneytt öllum glæsileik,
gildin hefur æði veik.

Á næstu jólum eins það er,
engan hefur karakter.
Rykið á því rétt ég lasta,
réttast væri burt að kasta.

Umhverfis það engan hefur
ávinning og fátt eitt gefur.
Fuglamæður fríðar neinar
fóstrað hafa þessar greinar.

Frá fyrstu gerð og allt til enda
eitrað loft mun frá sér senda.
Geta mun ei grófra synda
gróðurhúsaloftið binda.

Ekki má það endurvinna,
urðun verður því að sinna.
Dýrt er líka drottins orðið,
drjúgum er þá lagt á borðið.

Því er ráð mitt þér til handa,
þiggja skaltu – rétt skal standa.
Þín ég vona að venjan sé
að veljir alltaf ræktað tré.

Pétur Halldórsson sneri úr ensku