Haustsól í íslenskum skógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Haustsól í íslenskum skógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Dreift hefur verið á Alþingi frumvarpi að nýjum lögum um skóga og skógrækt. Frumvarpið er í meginatriðum samhljóða því frumvarpi sem kynnt var og tekið til umræðu á síðasta ári en dagaði uppi vegna stjórnarslita og kosninga. Gert er ráð fyrir því að umhverfis- og auðlindaráðherra mæli fyrir frumvarpinu í næstu viku og það verði tekið til fyrstu umræðu.

Núverandi skógræktarlög eru að stofni til frá árinu 1955 og lengi hefur verið talið brýnt að taka þau til gagngerrar endurskoðunar. Nokkrum sinnum hafa verið gerðar breytingar, til dæmis breytingar snerta skógrækt á lögbýlum, en síðustu breytingar voru gerðar til að gera sameiningu skógræktarstofnana ríkisins mögulega árið 2016 þegar Skógræktin varð til úr Skógrækt ríkisins og landshlutaverkefnunum fimm.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að hinn 18. apríl 2011 hafi þáverandi umhverfisráðherra skipað nefnd sem fékk það hlutverk að undirbúa gagngera endurskoðun á lögum um skógrækt, nr 3/1955. Nefndin hafi skilað greinargerð til umhverfis- og auðlindaráðherra í júní 2012 með tillögum að inntaki nýrra skógræktarlaga og frumvarp þetta sé að miklu leyti byggt á tillögum nefndarinnar. Það er því á sömu nótum og frumvarp sem Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, lagði fram á Alþingi í maí 2017.

Öllum er frjálst að senda nefnd skriflega umsögn um þingmál. Merkja skal umsögn greinilega með nafni sendanda, dagsetningu og númeri og heiti þingmáls samanber leiðbeiningar um umsagnir um þingmál.

Texti: Pétur Halldórsson