Auðveldar ræktun vel vaxinna og þéttra jólatrjáa

Nýtt efni sem stöðvar toppvöxt barrtrjáa gæti komið að góðum notum til að stýra vaxtarlagi og þéttleika jólatrjáa. Virka efnið eru hormón sem framleidd eru með hjálp sveppa og það er sagt skaðlaust í náttúrunni.

Frá þessu er sagt í nýútkomnu fréttabréfi samtaka norskra jólatrjáabænda, Den grønne gren. Efnið var kynnt í lok sept­ember hjá Sten Sørensen á tilraunareitum hans í Malling skammt sunnan Árósa í Danmörku. Um 220 manns komu til kynn­ingarinnar sem ber vott um að nokkur eftirvænting ríki meðal jólatrjáabænda og áhugi á kostum þessa nýja efnis í jólatrjáarækt.

Efnið kallast ConShape og hefur verið til prófunar hjá Sten Sørensen frá árinu 2012 í samstarfi við Bjarke Veierskov, plöntuphysiolog við Kaupmannahafnarháskóla. Efnið er byggt á þeim náttúrlegu plöntuhormónum sem halda brumum og fræjum í dvala yfir veturinn. Þegar efnið er borið á toppsprota barrtrjáa stöðvast vöxtur sprotans eftir því sem fram kemur í fréttabréfinu. Hormónin í ConShape eru framleidd í Bandaríkjunum með hjálp sveppa í sérstöku gerjunarferli. Á því er byggð sú staðhæfing að ConShape sé náttúruefni og valdi ekki skaða í umhverfinu.

Hugmyndin er sú að jólatrjáabændur fylgist með trjám sínum og noti þetta vaxtarhemjandi efni þegar ársproti trjánna er orðinn hæfilega langur. Þetta þýðir að ekki þarf að meðhöndla tré önnur en þau sem vaxa meira en æskilegt er. Fram kemur að ekki hafi orðið vart við skemmdir á toppsprotum eða afmyndun við þessar tilraunir. Hins vegar hafi komið í ljós að efnið hafi verkað eðlilega á öll tré sem efnið hefur verið borið á. Sumarið eftir vex svo nýr sproti og tréð verður þéttara og greinameira en ella.

ConShape er algjör nýjung á markaðnum og þarf því að fara sína leið í kerfinu til að hljóta alla þá viðurkenningu og leyfi sem til er ætlast í Danmörku. Vonast er til að bráðabirgðaleyfi fáist á næsta ári en til þess að mögulegt eigi að vera að fá leyfi fyrir efnið á öllum Norðurlöndunum 2018 þurfa prófanir að fara fram í einhverju hinna landanna á næsta ári. Þá verður í fyrsta lagi hægt að reyna efnið í Noregi til dæmis, eða þá hér á Íslandi.

Tíðindamaður fréttabréfsins Den grønne gren segist ráða af því sem hann sá á kynningunni í Malling að hér sé komið álitlegt hjálparmeðal sem eykur möguleika jólatrjáabænda til að rækta vel vaxin og þétt jólatré.


Texti: Pétur Halldórsson