Þykkur gæðaplanki og fallegir árhringir úr sextugum sitkabastarði sem nú gefur timbur til viðgerðar …
Þykkur gæðaplanki og fallegir árhringir úr sextugum sitkabastarði sem nú gefur timbur til viðgerðar á gömlum bát. Ljósmynd: Jóhannes H. Sigurðsson

Í sögunarmyllu Skógræktarinnar í Þjórsárdal var nýlega unnið efni til uppgerðar á gömlum bát. Langar og breiðar gæðafjalir þarf í slíkt verk og því þurfa trén sem efnið er unnið úr að vera há og sver. Fjalirnar í bátinn náðust úr einu tré úr hlíðum Skriðufells í Þjórsárdal.

Að sögn Jóhannesar H. Sigurðssonar, aðstoðarskógarvarðar á Suðurlandi, sem sér um sögunarmylluna í Þjórsárdal, fær Skógræktin ýmsar sérpantanir og fyrirspurnir um efnivið sem ekki er alltaf hægt að fá keyptan í timburverslunum landsins.

„Í þessu tilfelli var það bátasmiður sem hafði samband og vantaði nokkrar fjalir úr greni þar sem hann var að gera upp gamlan bát,“ segir Jóhannes. „Við fundum svo tré sem stóð þannig af sér að það mátti gjarnan fara. Þetta var sitkagrenibastarður af kvæminu Lawing, gróðursettur 1960 austur undir hlíðum Skriðufells. Fjalirnar þurftu að standast nokkurn veginn málin 420x25x3,5cm og þar sem tréð var mjög jafnbreitt náðust fjalirnar úr þessu eina tré, tveimur 4,2 metra löngum stokkum, en tréð var 35cm niður við rót og 27cm í 8,5m.“

Jóhannes segir að tréð hafi verið alls um 21 metri á hæð. Það er í sjálfu sér ekkert sérstaklega fréttnæmt að trén í skógunum okkar séu há og bein, bendir hann á, en það sé gaman að sjá hversu mikið nýtingarhlutfallið eykst með gæðum trjánna. Á meðfylgjandi myndum má sjá Frederik Zell Reimers, danskan skógarnema, vinna við þetta verk. Myndirnar tala sínu máli um skógarauðlindina á Íslandi sem smám saman gefur meira timbur, bæði að magni og gæðum.

Frétt: Pétur Halldórsson
Heimild: Jóhannes H. Sigurðsson