(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)
(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)

Út er komin nýtingaráætlun fyrir Reykjarhólsskóg í Skagafirði. Áætlunin nær yfir 12,5  hektara svæði. Þar af telst skóglendi vera um 11,1 ha.

Árið 1942 fékk skógræktarnefnd sýslunefndar Skagafjarðarsýslu allt að 20 ha landspildu úr landi Reykjarhóls hjá Héraðsskólanum í Varmahlíð til ævarandi leigulausra afnota og umráða fyrir væntanlega skógræktarstöð Skagafjarðarsýslu. Árið 1950 yfirtók Skógrækt ríkisins þessi sömu réttindi með samningi við skólanefnd Héraðsskólans og hefur haft þau síðan. Frá 1958 yfirtók Menningarsetur Skagfirðinga í Varmahlíð eignir Varmahlíðarfélagsins. Árið 1943 var svæðið girt um 1,8 km. langri girðingu og reyndist hún um 17,5 ha að flatarmáli.

Vorið 1944 hófst plöntuuppeldi í skógarreitnum í Varmahlíð á vegum skógræktarnefndarinnar. Á árunum 1950 til 1986 framleiddi gróðrarstöðin, sem kölluð var Laugarbrekka, 1.376.133 skógarplöntur og 59.957 garðplöntur. Eftir það var hún einkum rekin sem sölu- og dreifingarstöð fyrir plöntur frá Vöglum. Gróðrarstöðin var lögð niður árið 2002 og er svæðið nú nýtt í tengslum við ferðamannaþjónustu og tjaldsvæði.

Árið 2002 var vestur hluti svæðisins, um 4 ha, lagður undir sumarhúsabyggð og greiddi sveitarfélagið Skógrækt ríkisins bætur fyrir trjágróður á svæðinu. Stærð umsjónarsvæðis Skógræktar ríkisins er því nú um 12,5 ha.

Gróðursetning hófst 1947 og var framhaldið af krafti næstu 20 árin. Síðustu gróðursetningar á svæðinu eru frá árinu 2004. Samtals hafa verið gróðursettar um 276 þúsund plöntur á svæðið sem samanstanda af um 20 trjátegundum .

Flatarmál gróðursetninga á svæðinu er um 10,7 ha.

Áætlaðar framkvæmdir á svæðinu á árunum 2011 til 2020 ná samtals yfir 3,5 ha svæði. Mest er áætlað á fyrstu tveimur árunum eða um 2,5 ha. Aðallega er um að ræða grisjun.


Aðstaða til útivistar í og við Reykjarhólinn telst góð. Í jaðri skógarins er tjald- og hjólhýsasvæði með viðeigandi aðstöðu og ágætt göngustígakerfi sem er um 1,4 km. á lengd með tilheyrandi áningarstöðum.

Ekki eru lagðar til neinar umtalsverðar framkvæmdir vegna betrumbóta á aðstöðu til  útivistar í Reykjarhólsskógi að öðru leyti en því að lagt er til að gerður verði einn nýr göngustígur, um 200 metrar að lengd. Einnig er lagt til að merkingar sem vísa leiðina að svæðinu verði auknar og upplýsingastreymi bætt til ferðafólks, t.d. með uppsetningu upplýsingaskilta.




Texti: Rúnar Ísleifsson

Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir