(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)
(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)

Nýtingaráætlun fyrir Laxaborg í Dalabyggð er komin út. Áætlunin fyrir Laxaborg nær yfir um 47 ha svæði og er það allt afgirt. Ræktaður skógur á svæðinu er um 0,5 ha að stærð og lengd einnar raðar skjólbelta er um 450 m.

Landspildan Laxaborg var gefin Skógrækt ríkisins árið 1990. Elísabet Ólafsdóttir gaf svæðið til minningar um eiginmann sinn, Guðbrand Jörundsson. Tilgangur gjafarinnar er að viðhalda ræktun þeirri sem er í Laxaborg og auka hana. Landið var girt árin 1992 og 1993. Land Laxaborgar liggur að Haukadalsá, einni af þekktari laxveiðiám á Vesturlandi.

Áætlaðar framkvæmdir á árunum 2010 til 2019 ná samtals yfir 15,1 ha svæði. Þar af er áætluð jarðvinnsla og góðursetning í 5,8 ha, gróðursetning í ójarðunnið landi 8,8 ha og einnig er áætluð snyrting á gamla skógarreitnum um 0,5 ha. Áætlað er að gróðursetja samtals um 31.650 plöntur á þessu tímabili.

Varðandi ferðamennsku er lagt er til að settur verði upp áningarstaður við skógarreitinn þannig að ferðafólk geti notið útivistar í skógarlundinum. Þegar skógur tekur að vaxa í túnunum má síðan opna hann til útivistar

Á svæðinu er einn skógarreitur um 0,5 ha að stærð sem ræktaður hefur verið í nágrenni sumarbústaðar sem þar stendur. Þar er að finna allmargar trjátegundir svo sem birki, sitkagreni, stafafuru, lerki, fjallaþin, reynivið, alaskaösp, víði og fleira. Meðalhæð trjánna í reitnum er áætluð um 4,5 m. Ekki er ólíklegt að elstu gróðursetningar séu frá því fyrir 1950.