Í dag var athöfn í Hallormsstaðaskógi þar sem formleg aðkoma Hallormsstaðaskóla að skólaþróunarverkefninu ?Lesið í skóginn - með skólum? var innsigluð. Grenndarskógur (skólaskógur) Hallormsstaðaskóla var formlega opnaður með hátíðardagskrá og skólanum afhentur hann til afnota. Um leið var undirritaður samningur um formlega aðkomu Hallormsstaðarskóla að verkefninu sem Skógrækt ríkisins, Kennaraháskóli Íslands, Kennarasamband Íslands og Námsgagnastofnun standa sameiginlega að.

Tilgangur verkefnisins ?Lesið í skóginn - með skólum? er að safna reynslu og þekkingu um skipulega fræðslu um skóga og skógarnytjar í grunnskólum. Það verður m.a. gert með því að efla útinám sem nær til allra námsgreina og aldursstiga í skólanum. Markmiðið er m.a. að nemendur fræðist um vistfræði skógarins og skógarnytjar en einnig að efla samþættingu útináms við sem flestar námsgreinar sem kenndar eru í skólanum.

Grenndarskógurinn(skólaskógurinn) gegnir þarna lykil hlutverki og verður vettvangur fræðslunnar sem fram fer allt skólaárið. Miklu máli skiptir að skógurinn sé í göngufæri frá skólanum svo hægt sé að ganga þangað innan tímamarka kennslustundarinnar og losna við tímafrekar bílferðir með tilheyrandi kostnaði.
 
Hallormsstaðaskóli er annar skólinn sem gengur frá samningi um þátttöku í verkefninu, ?Lesið í skóginn - með skólum?, en Hrafnagilsskóli í Eyjafirði gekk frá sínum samningi s.l. vor. Auk þessara tveggja skóla taka fimm aðrir skólar þátt í verkefninu, en það eru: Andakílsskóli, Varmalandsskóli og Kleppjárnsreykjaskóli í Borgarfirði, Laugarnesskóli í Reykjavík og Flúðaskóli á Suðurlandi.
 
Verkefnið stendur í tvö ár eða til loka ársins 2005. Að því loknu er vonast til að byggst hafi upp reynsla og þekking í samvinnu við þessa skóla sem svari því hvernig best sé að standa að skipulegu útinámi í grenndarskógi. Einnig er þess vænst að námsefni verði tiltækt til að auðvelda þeim sem velja að leggja áherslu á samþætta fræðslu um skóga og skógarnytjar í útinámi. Námsgagnastofnun hyggst nýta sér afrakstur verkefnisins til námsefnisgerðar, en Kennaraháskóli Íslands mun meta starf móðurskólanna kennslufræðilega og einnig mun Kennarasamband Íslands veita faglegan stuðning.