Því skyldum við gera minna en við getum?

Fyrsta verkefni nýs skógræktarstjóra, Þrastar Eysteinssonar, er að sameina Skógrækt ríkisins og landshlutaverkefni í skógrækt og auka vægi skógræktar í loftslagsvernd. Þetta kom fram í viðtali Rúnars Snæs Reynissonar, fréttamanns Ríkisútvarpsins á Austurlandi, á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. „Áhersla verður lögð á að auka aftur gróðursetningu, sem skorin var niður um helming eftir hrunið,“ segir Þröstur meðal annars í viðtalinu.

Á vef Ríkisútvarpsins segir meðal annars:

Verkefni nýs skógræktarstjóra er að snúa vörn í sókn - ekki síst vegna loftslagsmálanna. Á Parísarfundinum í síðasta mánuði var rætt um að fara í margskonar aðgerðir.

„Hér á Íslandi ræðum við um að draga úr losun en líka um bindingu. Endurheimt votlendis er ágæt en að baki er veikur fræðilegur grunnur - hversu mikið af kolefni binst, koltvísýringur á móti metani sem losnar úr mýrunum. Landgræðsla er líka fín. Hún bindur kolefni í jarðvegi. En því skyldum við gera minna en við getum? Með því að bæta skógi ofan á land sem grætt er upp fáum við miklu meiri bindingu. Skógrækt bindur um þrefalt meira en landgræðslan ein. Ef við ætlum að nota land til að binda kolefni í andrúmsloftinu - í verndarskyndi fyrir lofstlagið - myndi ég vilja samræma landgræðslu og skógrækt. Bætum skóginum ofan á og fáum miklu meiri bindingu,“ sagði Þröstur Eysteinsson á Morgunvaktinni á Rás 1.

Hann ræddi líka hvaða áhrif það hefði haft þegar draga varð úr grisjun skóga, hvernig það drægi úr hagkvæmni skógarins. með grisjun færðist vöxturinn á færri tré sem nýttust fyrr. Margskonar ávinningur er af skógrækt: efnahagslegur, umhverfislegur og félagslegur.

„Umhverfisávinningurinn er m.a. jarðvegsvernd, kolefnisbinding, vatnsmiðlun, skjólmyndun, skógurinn dregur úr mengun í þéttbýli. Það er ýmislegt sem skógurinn getur bætt í umhverfinu. Auk þess sem hann býr til vistkerfi sem er heimili margra lífvera. Hann breytir vissulega vistkerfinu sem fyrir var en hann eyðir ekki, heldur breytir, og menn verða auðvitað meta hvort þeir vilja þær breytingar,“ segir Þröstur Eysteinsson. Hann bendir á að nota megi skóga til að bæta lýðheilsu: „Þeir sem ganga í skógi líður betur“.