Valdimar Reynisson hefur tekið við starfi skógarvarðar á Vesturlandi og verður það ásamt Birgi Haukssyni fyrst um sinn. Valdimar er fæddur 1965 og alinn upp í Árbæ í Reykjavík. Hann er sonur hjónanna Reynis Vilhjálmssonar, landslagsarkitekts og Svanfríðar Gunnlaugsdóttur. Valdimar segist snemma hafa verið sendur í sveit. „Þá var ekki aftur snúið, borgin var ekki í uppáhaldi eftir það. Ég ætlaði alltaf að verða bóndi en endaði í skóginum.“

Valdimar lauk námi af umhverfisbraut Garðyrkjuskólans árið 1990. Að loknu námi starfaði hann hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, lengst af sem verkstjóri í Heiðmörk, allt til ársins 2001 er hann tók við starfi forstöðumanns umhverfismála og búskapar á Sólheimum í Grímsnesi. Því starfi gengdi Valdimar til ársins 2004 þegar hann settist aftur á skólabekk og nam skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Að því loknu hélt hann til Svíþjóðar í meistaranám. Meðfram námi starfaði Valdimar bæði hjá Skógrækt ríkisins á Vesturlandi og sem verktaki. Í haust hóf hann störf sem aðstoðarskógarvörður á Vesturlandi og hefur nú, frá og með 1. febrúar, tekið við starfi skógarvarðar í sama landshluta.