Þessi mynd er stækkuð út úr mynd sem tekin var á síma úr talsverðri fjarlægð og því nokkuð ógreinile…
Þessi mynd er stækkuð út úr mynd sem tekin var á síma úr talsverðri fjarlægð og því nokkuð ógreinileg. Þó má greina á henni stóra dökka fugla, ljósa á bringunni, sem sitja uppréttir eins og dílaskarfurinn gerir einmitt. Fátt annað kemur til greina en þetta séu dílaskarfar, líklega ungfuglar. Ljósmynd. Brynjar Skúlason

Sjö skarfar sáust í morgun sitjandi í aspartrjám í Eyjafjarðarsveit. Ekki er útilokað að skarfar taki upp á því að verpa í trjám á Íslandi eftir því sem skógar vaxa og tré stækka því sá er háttur þeirra í útlöndum.

Brynjar Skúlason, skógerfðafræðingur hjá Skógræktinni, býr í Hólsgerði, innsta bæ í Eyjafirði. Á leið sinni til vinnu á Akureyri í morgun tók hann eftir stórum fuglum sem sátu í þremur öspum við Hestvatn, lítið vatn við þjóðveginn neðan Leyningshóla í Eyjafirði. Fuglarnir voru ljósir á kviði en annars svartir. Þótti Brynjari þeir einna helst minna á dílaskarf en fannst þó sérkennilegt að slíkir fuglar, sem helst getur að líta við sjávarsíðuna, væru sestir upp í tré.

Þegar Sverrir Thorstensen, fuglatalningamaður á Akureyri, var inntur eftir því hvað þetta gæti mögulega verið staðfesti hann að líklegast væru þetta dílaskarfar. Þótt Íslendingar væru ekki vanir að sjá fugla af þeirri tegund sitjandi í trjám væri ekki óalgengt í útlöndum að þeir gerðu sér hreiður í trjám. Þá byggju gjarnan nokkur pör saman, hvert með sitt hreiður í sama trénu. Stundum yrði dritið af slíkum skarfafjölda meira en svo að trén þyldu til lengdar. Þegar trén dræpust færðu skarfarnir sig einfaldlega í nýtt tré.

Dílaskarfur er stór, dökkur og hálslangur sjófugl, eins og segir í Íslenskum fuglavísi Jóhanns Óla Hilmarssonar. Fullorðinn fugl er að mestu svartur en með hvíta kverk og vanga og stóran hvítan díl á hvoru læri. Ungfugl á fyrsta ári er brúnn að ofan og ljós að neðan, frá höfði og niður á kvið, en dökknar síðan smátt og smátt og fær fullorðinsbúning á þriðja ári. Brynjar Skúlason tók myndir með síma úr nokkurri fjarlægð af skörfunum í öspunum við Hestvatn. Því duga þær ekki til að hægt sé að greina fuglana með fullri vissu. Fátt annað virðist þó koma til greina en dílaskarfur. Fuglarnir eru ljósir að neðan svo að ef þetta eru dílaskarfar, eru það væntanlega ungfuglar.

Ekki skal því lýst yfir að svo stöddu að dílaskarfur sé nýjasti skógarfuglinn á Íslandi. Hann yrði þó ekki fyrsta fuglategundin sem tæki upp á þeim nýja sið að verpa í trjám hérlendis. Hrafninn er gott dæmi um fugl sem áður verpti ekki í trjám á Íslandi en er farinn að gera það hin síðari ár eftir því sem myndarlegum trjám fjölgar í landinu. Hvað skarfurinn gerir í framtíðinni verður spennandi að sjá. Eða haförninn...

Texti: Pétur Halldórsson