Þinplanta með einkenni svepprótarsýkingar. Phytophthora cactorum er rótarsveppur sem verið hefur til…
Þinplanta með einkenni svepprótarsýkingar. Phytophthora cactorum er rótarsveppur sem verið hefur til vandræða í eplarækt en getur borist í aðrar tegundir. Hann er þó ekki talinn geta orðið skaðvaldur úti í náttúrunni á Íslandi. Samt sem áður verður reynt að hindra að hann dreifist frá gróðrarstöðvum.

Nauðsynlegt að endurskoða reglugerð um innflutning plantna

Síðastliðið haust kom í ljós rótar­sýk­ing í þinplöntum í plöntu­uppeldis­reit íslenskrar gróðrarstöðvar. Ein­kenni vöktu upp grunsemdir um að þar væri Phytophthora-sveppasýking á ferðinni. Sýni voru  send til Noregs þar sem staðfest var með DNA-greiningu að sýkingin væri af völdum rótarsveppsins Phytophthora cactorum. Hófust strax aðgerðir til þess að eyða smiti í stöðinni og koma í veg fyrir að það dreifðist þaðan.

Tegundin P. cactorum er einkum þekkt sem skaðvaldur í eplarækt en getur lagst á fleiri plöntu­teg­und­ir. Tekið skal fram að hún veldur einkum skaða í gróðrarstöðvum en er almennt ekki til vandræða úti í náttúrunni. Samt sem áður er nú lögð áhersla á að koma í veg fyrir að hún breiðist út úr gróðrar­stöðinni. Í því skyni hefur verið ákveðið að taka allmörg sýni til viðbótar og senda til greiningar í Nor­egi.  Með því ætti að vera hægt að tryggja að ekkert smit berist út með seldum plöntum.

Í samráði við Matvælastofnun, sem sér um eftirlit með plöntusjúkdómum, hefur verið sótt um fjár­veit­ingu til greiningar á sýnunum. Fylgst verður nánar með sjúkdómseinkennum trjáplantna hjá öllum framleiðendum til að kortleggja mögulega útbreiðslu sjúkdómsins hér á landi.

Skylt kartöflumyglu

Sveppurinn P. cactorum er aðeins ein fjölmargra tegunda í Phytophthora-ættkvíslinni. Allt eru þetta jarðvegssveppir sem flestir eru skaðlausir. Nokkrar tegundir eru þó gamalþekktir skaðvaldar eins og til dæmis P. infestans, sem veldur kartöflumyglu. Sú tegund er eina tegundin sem vitað var um hér á landi þar til í haust. Telja má þó víst að margar skaðlitlar tegundir hafi borist hingað með innflutningi í áranna rás. Í reglugerð um inn- og útflutning plantna og plöntuafurða er listi yfir skaðvalda sem við viljum ekki fá inn í landið. Fyrir þremur árum var tegundin P. ramorum sett á þann lista.

Aðgæslu þörf við plöntuinnflutning
og þörf á endurskoðaðri reglugerð

Innflutningur á plöntum hefur alltaf vissa hættu í för með sér. Heilbrigðisvottorð fylgir sendingunum en það staðfestir einungis að engir skaðvaldar sem eru á bannlista í okkar reglugerð hafi fundist í sendingunni eða þar sem plönturnar voru ræktaðar. Innflutningsreglugerð okkar er frá 1990, með ýmsum nýrri viðbótum. Nauðsynlegt er að endurskoða hana hið fyrsta.

Hafa ber í huga að heilbrigðisvottorð tryggir aldrei fullkomlega að engir skaðvaldar berist með inn­fluttum plöntum. Skaðvaldar sem fylgja rótum og jarðvegi eru sérstaklega varhugaverðir vegna þess að iðulega sjást þeir alls ekki við skoðun. Rétt er því að minna innflytjendur plantna á að sýna að­gæslu og varkárni þegar þeir hafa fengið plönturnar í hendur.

Texti: Brynjar Skúlason og Pétur Halldórsson
Mynd: Pétur Halldórsson