Eitt af stærstu verkefnum Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá er Íslensk skógarúttekt. Markmið verkefnisins er að safna á vísindalegan hátt upplýsingum og skóglendi á Íslandi, m.a. stærð þess. Á hverjum vetri er flatarmál skóga reiknað út og ýmsar aðrar mikilvægar stærðir eru metnar, s.s. kolefnisforði skóga og breytingar á honum. Í tilviki Íslands er kolefnisforðinn jákvæð stærð, þ.e. kolefnisbinding.

Samkvæmt nýjustu útreikningum eru ræktaðir skógar á Íslandi um 34.600 ha sé tekið mið af árslokum 2009. Með ræktuðum skógum er átt við skóga sem að hafa orðið til við beinar aðgerðir okkar mannanna, þá oftast við gróðursetningu trjáplantna eða við beina sáningu trjáfræs. Undir þennan flokk falla líka sjálfsáningar frá manngerðum skógum.

Náttúrulegir birkiskógar og -kjarr þekja 85.000 ha, eða töluvert minna en fyrra mat á birkiskógum og -kjarri sagði til um. Sú úttekt var gerð í kringum 1990. Þá var náttúrulegur birkiskógur og –kjarr talið vera um 118.000 ha. Þennan mun má ekki skilja sem svo að náttúrulegir birkiskógar hafi eyðst á tímabilinu, heldur er líklegasta skýringin sú að fyrri úttektin hafi ofmetið flatarmál þeirra. Til náttúrulegra birkiskóga og -kjarrs teljast þeir skógar sem hafa sprottið hér af sjálfsdáðum og einnig sjálfsáningar sem rakið geta uppruna sinn til þeirra.

 

Texti: Arnór Snorrason, skógfræðingur hjá Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá