Lirfa birkiþélunnar er smávaxin og kemur sér fyrir milli laga í laufblöðum birkisins. Því er erfitt …
Lirfa birkiþélunnar er smávaxin og kemur sér fyrir milli laga í laufblöðum birkisins. Því er erfitt að vinna á henni, til dæmis með eitri. Skjámynd úr frétt RÚV.

Nýjar tegundir meindýra festa sífellt rætur hér á landi. Birkiþéla hefur leikið birkitré á höfuðborgarsvæðinu grátt síðari hluta sumars. Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur á Mógilsá, rannsóknasviði Skógræktarinnar, segir að hlýnun sé líklega ástæðan fyrir því að sífellt séu fleiri tegundir að bætast við.

Rætt var við Brynju í tíufréttum Sjónvarpsins þriðjudagskvöldið 3. september. Fréttin er á þessa leið:

Birkiþélan er smávaxin blaðvespa sem verpir í ný birkilauf um hásumar. Lirfurnar gera sér svo leið inn í laufið þar sem þær éta innan úr því og laufin verða brún vegna skemmda í ágúst. Svo virðist sem birkiþélan drepi ekki birkið en ekki er vitað um afleiðingar til lengri tíma.

Brynja Hrafnkelsdóttir. Skjámynd úr frétt RÚV„Þær eru náttúrlega útlitslegar þannig að það er ekki gaman að hafa þetta í garðinum hjá sér. Svo hefur þetta örugglega áhrif á vöxt og kannski nær birkið ekki að vetra sig fyrir veturinn jafn vel,“ segir Brynja

Ómögulegt hefur reynst að útrýma birkiþélunni og ekki dugir að eitra til að losna við hana úr garðinum.

„Þetta er frekar erfitt af því að lirfan er varin innan í laufblaðinu, ekki eins og margar aðrar fiðrildalirfur sem eru utan á laufblöðunum. Það er erfitt að eitra. Tímasetningin þarf að vera mjög nákvæm og vanalega tekur fólk ekki eftir þessu fyrr en skaðinn er skeður.“

Birkikemba, sem er fiðrildalirfa, skilur svipuð ummerki eftir sig. Erfitt getur því reynst að greina birkiþéluna frá birkikembunni. Til að fá úr því skorið þarf að opna laufin og tegundagreina saur lirfanna. Eins getur tímasetning sagt til um hvort meindýrið var að verki.

Laufblöð sem eru orðin alveg brún af völdum birkiþélu. Skjámynd úr frétt RÚV„Hérna sjáið þið til dæmis sýkt lauf sem eru orðin brún. Þetta fer að sjást um miðjan ágúst. En ef þið sjáið svona sýkt lauf á vorin eða um miðjan júní þá er það birkikemban.

Birkiþélan gerði fyrst vart við sig hér á landi árið 2017 en hún hefur á skömmum tíma náð sömu útbreiðslu og birkikemban sem nam hér land níu árum áður. Hvað veldur því að sífellt fleiri tegundir séu að bætast við?

„Aðallega hlýnun,“ segir Brynja Hrafnkelsdóttir.

Fréttin birtist í tíufréttum Sjónvarpsins 3. september og hefst á mínútu 7.09.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson