Norðmenn nýta timbrið úr skóginum betur og betur.

Ástæða er til að benda áhugasömum á skemmtilegt myndband sem gert hefur verið um nýja skólabyggingu í Noregi. Byggingin er að mestu úr timbri og ber vott um aukna áherslu Norðmanna á að nota þetta visthæfa, innlenda byggingarefni frekar en önnur til húsagerðar.

Skólinn heitir Nye Søreide skole og er í Björgvin í Noregi. Skólabyggingin er hluti af verkefni sem kallast „Tid for tre i fremtidsbyen Bergen“ og vísar til þess að timbur sé byggingarefnið sem leggja skuli áherslu á að nota í framtíðaruppbyggingu borgarinnar. Markmið verkefnisins er að reist verði hágæðahús úr timbri sem séu mjög orkusparandi.

Eins og við höfum fjallað um hér á síðunni er margt að gerast í þessum efnum í Noregi enda stækkar skógarauðlind Norðmanna stöðugt og nóg af þessu visthæfa byggingarefni til í landinu. Með því að nota timbur í varanlega hluti eins og hús geymist kolefnið lengur í viðnum. Umhverfisáhrif timburs eru líka jákvæð en ekki neikvæð eins og umhverfisáhrif steinsteypu. Timbrið bindur kolefni og skógar bæta umhverfið, veita skjól, atvinnu, tekjur og svo framvegis en steinsteypu fylgir mikill kolefnisútblástur, olíunotkun og gjaldeyristap.

Smellið hér til að horfa á myndbandið.