Birki að laufgast í lok apríl 2019. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Birki að laufgast í lok apríl 2019. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Samræmd löggjöf um skóga og skógrækt sem samþykkt var á Alþingi í morgun leysir af hólmi lög sem að stofni til voru frá árinu 1955. Ýmis nýmæli eru í nýju lögunum. Til dæmis fær hugtakið þjóðskógar lagalegt gildi og Skógræktin fær lögbundið hlutverk í loftslagsmálum.

Stjórnarfrumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra um skóga og skógrækt var samþykkt á Alþingi laust fyrir hádegi í dag með áður samþykktum breytingatillögum. Þriðja umræða um frumvarpið var á dagskrá þingsins í morgun en þar sem enginn hafði kvatt sér hljóðs um málið var gengið beint til atkvæðagreiðslu og var frumvarpið samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. „Já,“ sagði 51 þingmaður en tólf voru fjarstaddir. Af þessu má ráða að algjör eining hafi verið um málið meðal þingmanna.

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri fagnar þessum tíðindum mjög enda sé nú verið að sameina í einn lagabálk öll lög sem snerta skóga og skógrækt á Íslandi. Lög um skógrækt á lögbýlum séu til dæmis hluti af þessum lögum. Nýmæli sé í lögunum að hugtakið þjóðskógar hafi nú í fyrsta sinn fengið lagalegt gildi og nú sé líka í  fyrsta sinn tekið á loftslagsmálum í löggjöf um skógrækt. Þá er skýrt kveðið á um að byggja skuli upp sjálfbæra skógarauðlind til fjölbreyttra nota og að nota skuli skógrækt til jarðvegsverndar og sem vörn gegn náttúruvá.

Þetta þýðir, segir Þröstur, að kolefnisbinding sé nú eitt af lögbundnum hlutverkum Skógræktarinnar. Stofnunin eigi nú samkvæmt lögum að binda kolefni með skógrækt og stuðla að sem mestri kolefnisbindingu skóga. Einnig sé nú í fyrsta sinn ákvæði í lögum um gerð lands- og landshlutaáætlana um skógrækt og jafnframt sé það nú lögbundin skylda Skógræktarinnar halda skógaskrá fyrir landið. Í þessari skógaskrá skuli meðal annars tilgreina þá skóga sem teljist vistfræðilega merkilegir og því sé loks hægt að framfylgja ákvæðum þar að lútandi sem hafa verið í gildi um hríð í lögum um náttúruvernd.

Lögbundna skilgreiningu á skógi hefur ekki verið að finna í íslenskum lögum þar til nú. Með nýju lögunum er bætt úr því og þar með er orðið óumdeilanlegt hvað skuli kallast skógur og hvað ekki. Lögin efla einnig eftirlitshlutverk Skógræktarinnar með skóglendi á Íslandi og veita stofnuninni heimild til að beita sektum ef ástæða þykir til vegna brota á ákvæðum um meðferð skóga.

Skógræktarstjóri segir þó að lögin nýju breyti ekki mjög miklu fyrir daglega starfsemi Skógræktarinnar. Aðdragandinn að lagasetningunni hafi verið langur og þegar Skógræktin varð til við sameiningu stofnana 2016 hafi verið höfð hliðsjón af þeim lagadrögum sem þá lágu fyrir og hafi ekki breyst í meginatriðum í meðferð þingsins. Þetta sjáist til dæmis á skipuriti Skógræktarinnar þar sem til varð samhæfingarsvið sem m.a. fæst við gerð lands- og landshlutaáætlana. 

Endanlegur lagatexti um skóga og skógrækt liggur enn ekki fyrir. Eftir er að setja inn þær breytingatillögur sem komu frá umhverfis- og samgöngunefnd og samþykktar voru í annarri umræðu um frumvarpið. Allar upplýsingar um feril málsins er þó að finna á vef Alþingis.

Texti: Pétur Halldórsson