Í myndböndunum fer Bergsveinn Þórsson skógfræðingur yfir helstu atriði sem hafa þarf í huga við gróð…
Í myndböndunum fer Bergsveinn Þórsson skógfræðingur yfir helstu atriði sem hafa þarf í huga við gróðursetningu bakkaplantna. Skjámynd úr myndbandi

Skógræktin hefur gefið út tvö ný myndbönd þar sem gróðursetning bakkaplantna er sýnd í verki og farið yfir helstu atriði sem hafa þarf í huga þegar trjáplöntur eru gróðursettar. Leiðbeinandi í mynd­bandinu er Bergsveinn Þórsson, skógfræðingur og skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni.

Röng áburðargjöf er verri en engin. Ekki má setja allan skammtinn upp við plöntuna því þá getur hún þornað upp og drepist. Skjámynd úr myndbandiVel þarf að vanda til verka við skógrækt. Sjá þarf til þess að vel sé búið að plöntunum allt þar til að gróðursetningu kemur. Gæta þarf þess að plönt­urnar þorni aldrei og að þær séu ekki geymd­ar í sterku sólskini eða þar sem mikið næðir um þær. Þegar að gróðursetningu kemur er ekki sama hvernig plönturnar eru settar niður. Þær mega ekki fara of djúpt, ekki of grunnt og að sjálf­sögðu þarf að gæta þess að þær verði ekki fyrir hnjaski í meðförum þess sem gróðursetur. Val á gróðursetningarstað getur líka skipt sköp­um um að plantan lifi. Plöntur sem settar eru í flög geta lyfst upp og drepist næsta vetur vegna frost­lyft­ing­ar. Planta norðan við þúfu á erfiðara upp­drátt­ar en planta sólarmegin sunnan þúfunnar og ofan á þúfunni er meiri hætta á að plantan þorni.

Öll þessi atriði fer Bergsveinn mjög vel yfir í þessum myndböndum. Hann lýsir verkfærunum sem notuð eru, sýnir hæfilegt millibil milli plantna eftir því hvaða þéttleika er óskað og fleira og fleira. Styttra mynd­bandið er í raun útdráttur úr því lengra.

Þessi tvö myndbönd má finna á myndbandasíðum Skógræktarinnar á skogur.is og á Youtube-rás Skóg­ræktarinnar. Hlynur Gauti Sigurðsson, kvikmyndagerðarmaður Skógræktarinnar, tók upp efnið á skóg­ar­jörðinni Grjótgarði á Þelamörk og vann myndbandið.

@IcelandicForest
#skograektin #nyskograekt #skograektalogbylum

Texti: Pétur Halldórsson