(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)
(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)

Niðurstöður sem marka tímamót

Endurkortlagningu náttúrulegra birkiskóga og -kjarrs á Íslandi er lokið og nú liggja helstu niðurstöður hennar fyrir. Þessar niðurstöður verða kynntar Sigrúnu Magnúsdóttur, ráðherra umhverfismála, þriðjudaginn 3. febrúar kl. 13 á fundi sem haldinn verður á Rannsóknastöð skóg­ræktar, Mógilsá í Kollafirði.

Niðurstöður­nar sem kynntar verða marka tímamót í sögu íslenskra skóga frá landnámi því segja má að hnignun þeirra sem hófst við upphaf byggðar í landinu sé nú lokið og birkiskógarnir farnir að breiðast út á ný.

Dagskrá fundarins:

  • 13:00     Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður á Mógilsá, býður gesti velkomna
  • 13:05     Arnór Snorrason skógfræðingur rekur stuttlega sögu birkikortlagningar á Íslandi
  • 13:15     Björn Traustason landfræðingur tíundar helstu niðurstöður birkikortlagningarinnar
  • 13:30     Jón Loftsson skógræktarstjóri afhendir ráðherra gjöf
  • 13:40     Ráðherra ávarpar fundinn
  • 13:45     Spurningar úr sal
  • 13:50     Myndataka, viðtöl og veitingar

Á fundinum verða sérfræðingar Skógræktar ríkisins til viðtals um niðurstöðurnar. Auk Sigrúnar Magnús­dóttur umhverfisráðherra verður Jón Loftsson skógræktar­stjóri viðstaddur ásamt fleiri yfirmönnum og öðru starfsfólki Skógræktar ríkisins, en einnig ýmsir sérfræðingar og vísinda­fólk sem tekið hefur þátt í rannsóknum á íslenska birkinu fyrr og síðar.

Í tengslum við kynningu niðurstaðnanna hefur skóglendisvefsjá Skógræktar ríkis­ins verið uppfærð á vef stofnunarinnar. Skóglendisvefsjáin sýnir allt skóglendi sem upplýsingar eru til um á Íslandi, bæði náttúrlegt birkiskóglendi og ræktaða skóga. Smellið hér til að skoða vefsjána.

Hér eru fáeinir punktar um það sem tíundað verður í ítarlegra máli á fundinum.

  • Unnið hefur verið að endurkortlagningu náttúrulegra birkiskóga og -kjarrs á Íslandi undanfarin fimm ár
  • Náttúrulegt birki er nú í framför og hefur flatarmál þess aukist um 130 ferkílómetra frá síðustu úttekt fyrir aldarfjórðungi
  • Þetta er fyrsta staðfesta framfaraskeiðið eftir margra alda hnignunarskeið sem hófst við landnám Íslands þegar talið er að birkið hafi þakið 25% landsins
  • Mikill munur er á milli landshluta og er aukningin mest á Vestfjörðum

Texti: Pétur Halldórsson
Mynd efst á síðu: Esther Ösp Gunnarsdóttir


Fræmyndun á birki í yfir 500 metra hæð yfir sjó. í Austurdal í Skagafirði. 
Mynd: Pétur Halldórsson.