Villt birki á Þórsmörk. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Villt birki á Þórsmörk. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Á tímabilinu 1987 til 2007 varð engin breyting á lífmassa ofanjarðar í náttúrulegu birkiskóglendi á Íslandi. Eðlilega mældist hins vegar aukning á svæðum þar sem birki hefur numið nýtt land. Þetta eru niðurstöður íslenskra vísindamanna sem birtar hafa verið í ritinu Icelandic Agricultural Sciences (IAS).

Greinin er á ensku en með íslenskum útdrætti.  Hún ber titilinn Aboveground woody biomass of natural birch woodland in Iceland - Comparison of two inventories 1987-1988 and 2005-2011. Hún birtist í nýútkomnu hefti IAS, þriðja hefti 2019. Höfundar eru Arnór Snorrason, Þorbergur Hjalti Jónsson og Ólafur Eggertsson, sérfræðingar á Mógilsá, rannsóknasviði Skógræktarinnar. Þetta er þriðja ritrýnda greinin sem birst hefur í kjölfar fyrstu úrtaksúttektar og endurkortlagningar náttúrulegs birkis á Íslandi.

Bent er á í greininni að ilmbjörk sé eina innlenda trjátegundin sem myndi skóga og kjarr á Íslandi en frá landnámi hafi slíkt skóglendi á landinu minnkað mikið, frá því að þekja um 28% niður í 1,5% af flatarmáli Íslands samkvæmt endurkortlagningu sem gerð var 2010-2014.

Greinarhöfundar mátu lífmassa ofanjarðar í náttúrulegu birkiskóglendi með tuttugu ára millibili. Gögnin voru fengin úr tveimur úrtaksúttektum. Metið var hvort lífmassi ofanjarðar hefði aukist eða minnkað frá fyrri úttektinni. Notuð voru gögn úr þeim tveimur úttektum sem hafa verið gerðar á síðustu þremur áratugum. Svæði sem voru skoðuð á árunum 1987-1988 voru skoðuð aftur 2005-2011. Sama birkiskóglendi var með öðrum orðum tekið út með tuttugu ára millibili.

Þessar tvær úttektir voru töluvert ólíkar hvor annarri, til dæmis í því sem snertir úrtakseiningar, úrtaksflokkun og skilgreiningu skóglendis. Þess vegna þurfti að vanda alla kvörðun og útreikninga þannig að gögnin yrðu samanburðarhæf. Lífmassi trjágróðurs ofanjarðar í flokkaðri úrtaksúttekt sem gerð var 1987-1988 var metinn 1.503.000 tonn (SE = 175, n= 272) en 1.455.000 tonn (SE 180, n= 181) í óflokkaðri úrtaksúttekt sem gerð var á árunum 2005-2011.

Tölfræðilegur samanburður á lífmassa trjágróðurs á flatareiningu í könnununum tveimur sýndi að munurinn var ekki marktækur í hvorugum hæðarflokknum, < 2 m (P=0,282) og 2-4 m (P=0,673). Niðurstaða greinarhöfunda var því að ofanjarðarlífmassi trjágróðurs í náttúrulegu birkilendi á Íslandi birkilendi sem þegar var fyrir hendi 1987-1988   hafi ekki tekið marktækum breytingum. Með öðrum orðum reyndist lífmassi ofanjarðar álíka mikill í seinni úttektinni og verið hafði á sama birkilendi tuttugu árum fyrr.

Auk þess að skoða niðurstöður frá tilteknum svæðum með tuttugu ára millibili könnuðu greinarhöfundar lífmassa á svæðum þar sem birki hafði verið að breiðast út á sama tíma. Metin var aukning á lífmassa í trjágróðri ofanjarðar. Í ljós kom að þessi aukning var metin 37.000 tonn í náttúrulegum nýgræðslum birkis á milli úttektanna tveggja.

Texti: Pétur Halldórsson