Hjá EUFORGEN þykir forvitnilegt að miðla því sem unnið er að á Íslandi við aðlögun þessi efniviðar s…
Hjá EUFORGEN þykir forvitnilegt að miðla því sem unnið er að á Íslandi við aðlögun þessi efniviðar sem notaður er til nýskógræktar. Hér er kvikmyndagerðarfólkið ásamt Þresti Eysteinssyni skógræktarstjóra í Fræhúsinu á Vöglum þar sem lerkiblendingurinn 'Hrymur' verður til.

Notkun kynbætts efniviðar til skógræktar á skóglausu landi

Hefur Ísland alltaf verið skóglaust land? Geta skógar vaxið á þessari eldfjalla- og jöklaeyju? Í nýju myndbandi EUFORGEN er þessum spurningum svarað með því að rekja sögu skógræktar á Íslandi. Útskýrð er nytsemi þess að huga að erfðaefni fræja, stiklinga og ungplantna og hvernig það stuðlar að heilbrigðum og gjöfulum skógum.

EUFORGEN er samstarfsvettvangur Evrópulanda um erfðaauðlindir skóga. Í myndbandinu segir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri frá eyðingu skóganna sem prýddu landið þegar það byggðist og hversu fljót roföflin voru að eyða skógunum þegar landið byggðist og búfjárbeit kom í veg fyrir að skógarnir yxu upp aftur. Hann dregur upp mynd af skógræktarstarfi Íslendinga og ræðir um hvernig unnið er að því að auka gæði þess efniviðar sem notaður er til skógræktar með því kynbótastarfi sem unnið er að hjá Skógræktinni.

Afforesting Iceland - a cause for optimism

Tilgangur myndbandsins er einmitt að sýna hvernig Íslendingar nota kynbættan efnivið í nýskógrækt á skóglausu landi. Skógræktarstarf á Íslandi er á margan hátt ólíkt skógræktarstarfi í þeim löndum Norður-Ameríku og Evrópu þar sem eru rótgrónir skógar og löng hefð fyrir nýtingu og endurræktun skóga. En skógrækt á skóglausu landi er eitt af því sem mannkyn þarf að huga að í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og EUFORGEN vekur með þessu mynd­bandi athygli á því sem hægt er að gera, jafnvel við erfiðar aðstæður eins og á íslenskum eyðisöndum.

Ewa Hermanowicz starfar að samskiptamálum hjá EUFORGEN og stýrði gerð myndbandsins ásamt tveimur starfs­mönnum breska kvikmyndafyrirtækisins Duckrabbit, Oli Sharpe myndatökumanni og Benjamin Chesterton upptöku­stjóra.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson