Hugað að vinnuaðstöðu í skóginum

Skógarhögg er vaxandi starfsemi hérlendis og er það gott. En þetta er líkamlega erfið vinna og því er nauðsynlegt að huga vel að líkamsbeitingunni. Hægt er að gera vinnuna léttari með réttri líkamsbeitingu. Skógarhöggsmenn þreytast minna og endast lengur ef passað er upp á vinnutæknina.

Ein leið til að hlífa skrokknum er að nota bekki við skógarhögg. Í apríl 2010 kom hingað til lands norskur skógarhöggsmaður, Tom Rune Engen, frá Norsk Kursinstitutt. Hélt hann námskeið fyrir íslenska skógarhöggsmenn á Hallormsstað og á Stálpastöðum. Eitt af því sem hann kenndi var notkun bekkja í skógarhöggi.

Þessir bekkir eru þannig gerðir:

  • Tré er fellt, stubburinn látinn vera í læris- til mittishæð.

  • Skarð er tekið ofan í stubbinn.

  • Restin af bolnum er afkvistuð og annar endi hanns lagður í skarðið.

  • Síðan eru tré í nágrenninu felld á bekkinn.

Staðsetning bekkjanna í skóginum miðast við að hægt sé að nota hvern bekk fyrir mörg tré. Það er auðvelt að snúa bekk. Þá er bara tekið nýtt skarð í hann og bolurinn færður til. Þá er hægt að nota bekkinn við fellingar úr annarri átt.

Varast ber að láta bolendann sem liggur í skarðinu standa langt út fyrir stubbinn. Það getur skapað slysahættu ef fellt er á enda sem stendur út fyrir og hefur ekki stuðning. Bolurinn getur skotist upp í loftið og lent á einhverjum.

Ef bekkurinn er þannig staðsettur að stæða megi myndast við hann er hægt að láta bolina renna niður bekkinn í stæðuna. Svo þegar bekkurinn er fjarlægður að notkun lokinni stendur stæðan eftir tilbúin fyrir viðarvagninn eða spilið.

Hægt er að setja upp kerfi bekkja með því að tengja nokkra saman. Það getur gefið aukna möguleika í fellingaráttinni og jafnvel nýst sem flutningstæki fyrir boli.

Það sem vinnst með því að nota bekk er vinnuhæðin við afkvistunina. Minna þarf að beygja sig, afkvistunin verður auðveldari, betri og fljótlegri ef notast er við bekk. Hið svokallaða 6 punkta kerfi við afkvistun virkar vel við notkun bekkja. Einnig er auðveldara að hreyfa stóra boli með því að nota bekkinn sem færiband eða til að hreyfa boli með vogarafli. Tréð liggur ekki á jörðinni og því minni hætta á að keðjan fari í stein eða jarðveg. Bitið endist því betur í söginni.

Bekkirnir eru svo fjarlægðir að notkun lokinni.

Á meðfylgjandi myndum sýna Aron Hansen og Orri Freyr Finnbogason notkun bekkja.

 
Kvistað á bekk


Bekkir í skógi. Efnið er lagt upp fyrir spil


Skarð tekið í stubbinn


Stórt tré kvistað á bekk. Takið eftir vinnuaðstöðunni


Stórum bol velt eftir bekknum


Bolurinn kominn á réttan stað með litlu erfiði


Svo er gott að nota bekkina til að tylla sér og fá sér hressingu

Myndir og texti: Valdimar Reynisson, skógarvörður á Vesturlandi