Norðmenn kynna skýrslu um áburðargjöf og kolefnisbindingu

Nytjaskógur bindur umtalsvert meira kolefni ef áburði er dreift áratug áður en skógurinn er felldur. Skógar í Noregi sem henta til slíkrar áburðargjafar gætu bundið aukalega kolefni sem nemur útblæstri 90-170 þúsund fólksbíla á hverju ári. Þetta er arðsamt fyrir skógareigendur en nauðsynlegt yrði þó að styrkja þá um 30% kostnaðarins til að tryggja að bindingin næðist. Skýrsla um þetta efni var kynnt á morgunverðarfundi sem haldinn var í Ósló fimmtudaginn 22. maí.

Til fundarins boðaði norska umhverfisstofnunin Miljødirektoratet, norska landbúnaðarstofnunin Statens landbruksforvaltning og norska skógar- og landslagsstofnunin, Norsk institutt for skog- og landskap. Stofnanirnar þrjár unnu sameiginlega að skýrslunni eftir forskrift frá loftslags- og umhverfisráðuneytinu og landbúnaðar- og matvælaráðuneytinu. Skýrslan heitir á norsku „Målrettet gjødsling av skog som klimatiltak – egnede arealer og miljøkriterier“. Fjallað er um markvissa skógrækt sem aðgerð í loftslagsmálum, hentug svæði til slíkrar ræktunar og þær umhverfislegu forsendur sem málið snerta. Skýrslan er unnin eftir þeirri stefnu um loftlsagsmál sem samþykkt hefur verið á norska stórþinginu.

Meiningin með skýrslunni var að vega og meta hvaða svæði í Noregi hentuðu til skógræktar þar sem markmiðið væri allt í senn að vinna gegn loftslagsbreytingum, skapa verðmæti og vernda umhverfið. Einnig vildu menn setja niður fyrir sér hvaða umhverfisþætti skyldi hafa í huga til að komast hjá óæskilegum áhrifum skógræktarinnar á líffjölbreytni, vatnsbúskap og önnur náttúrleg verðmæti og hvaða aðferðum mætti beita til að ná settum markmiðum og nýta þá möguleika sem fyrir hendi eru.

Á morgunverðarfundinum greindu forsvarsmenn stofnananna þriggja frá innihaldi og niðurstöðum skýrslunnar. Meðal annars er fjallað þar um áburðargjöf í nytjaskógrækt sem getur borgað sig fyrir skógareigendur. Í ljós hefur komið að með því að bera á skóginn áratug áður en hann er felldur eykst viðarmyndunin verulega og þar með kolefnisbinding skógarins. Niðurstaða skýrsluhöfunda er að þessi aðgerð borgi sig fyrir skógareigendur en ábatinn sé þó ekki nægur til að líklegt sé að skógareigendur muni ráðast í þetta án einhvers konar hvetjandi aðgerða. Til þess að ná fram þeirri auknu bindingu kolefnis sem þarna er möguleg sé því mikilvægt að veita styrki. Meta sérfræðingarnir það sem svo að styrkirnir þurfi að nema um 30% af kostnaðinum við áburðargjöfina.

Skýrsluhöfundar taka líka fram að ef norska ríkið ætlar að veita styrki af þessum toga þurfi að setja skýr skilyrði um ýmislegt sem snertir umhverfið svo áburðargjöfin valdi ekki náttúruspjöllum eða mengi vatn. Í skýrslunni eru tíundaðir umhverfisþættir sem skuli liggja til grundvallar umsóknum um styrki til áburðargjafar á síðustu árum vaxtarlotu nytjaskógar. Þar er sérstaklega litið til vatnsverndar. 

Í loftslagssáttmála norska stórþingsins er því slegið föstu að auka þurfi bindingu kolefnis í norskum skógum, bæði með því að stækka skógana og með því að auka kolefnisbindingu skóga sem fyrir eru. Þetta má meðal annars gera með því að auka niturmagn í jarðvegi skóganna. Með því verða trén bæði hærri og sverari. Þar með er þó ekki öll sagan sögð því nituráburður getur líka haft neikvæð áhrif á t.d. sveppi og önnur niðurbrotsöfl í skóginum og þar með á kolefnisbindingu. Jafnvel er talað um áhrif á líffjölbreytileika vistkerfisins. Þetta þarf að rannsaka betur, segir í skýrslunni, en eftir því sem best sé vitað nú um stundir auki áburðargjöf með nitri nettóbindingu skógarins. Heildaráhrifin séu því jákvæð.

Einkum er talað um að áburðargjöfin henti í meðalgóðum greni- og furuskógum og bestur árangur náist ef skógurinn er felldur áratug eftir áburðargjöfina. Ef borið er á 50-100 þúsund hektara skógar árlega í tíu ár er áætlað að eftir tíu ár nemi viðbótarkolefnisbinding 140-270 þúsund tonnum á hverju ári. Þetta samsvarar kolefnislosun frá 90-170 þúsund einkabílum á ári. Með öðrum orðum er hægt að binda kolefni frá 90-170 þúsund fólksbílum á ári með því að bera nitur árlega á 50-100 þúsund hektara skógar í Noregi.

Samanlagður kostnaður við slíkt verkefni er áætlaður 15-30 milljónir norskra króna á ári eftir umfangi. Samkvæmt reiknireglu frá norskum vinnuhópi um loftslagsmál, Klimakur 2020, yrði kostnaðurinn við hvert bundið tonn koltvísýrings í skógi 109 norskar krónur. Þá er ekki tekið með í reikninginn það aukna timbur sem skógareigandinn fær með þessu út úr skóginum sínum. Styrkur norska ríkisins til skógarbónda vegna áburðargjafarinnar þyrfti samkvæmt þessu að vera 36 norskar krónur fyrir tonnið.

Smellið hér til að lesa frétt um málið á vef norsku umhverfisstofnunarinnar.

Smellið hér til að skoða skýrsluna sjálfa.

Texti: Pétur Halldórsson

Myndir í röð að ofan: Anne Mæhlum, Kristian André Gallis, Agnieszka Kwiecień